Erlent

Gríðarleg gæsla við útför páfa

Útför páfa á föstudaginn kallar á einhverja mestu öryggisgæslu sem um getur. Auk tveggja milljóna pílagríma víðs vegar að er búist við meira en tvö hundruð þjóðarleiðtogum við útför páfans.

Tíu þúsund ítalskir lögreglumenn verða á vakt og meira en helmingur þeirra fær það verkefni að gæta þjóðarleiðtoganna. Þá verður fjöldi óeinkennisklæddra lögreglumanna innan um almenning á svæðinu. Öryggisgæsla á flugvöllum og lestarstöðvum hefur þegar verið hert og búist er við að loftsvæðið yfir Róm verði lokað á föstudaginn. 

Ljóst er að Péturstorg annar ekki öllu því fólki sem hyggst verða viðstatt jarðarför páfa. Yfirvöld í Róm vonast til þess að fólk sem ekki kemst á torgið sjálft muni horfa á athöfnina á risaskjám sem verður komið upp fyrir utan hringleikahúsið í Róm og þrjár stærstu kirkjurnar í borginni.

Strax í gær komu upp erfiðleikar vegna mannfjölda við Péturskirkju en þó var fjöldinn aðeins brot af því sem búist er við á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×