Tíska og hönnun

Massíf úlpa í kuldanum

Aðspurður um hvaða flík sé í algjöru uppáhaldi þessa dagana þá er Kristján Ingi Gunnarsson, einn af þáttastjórnendum Ópsins í Sjónvarpinu, í engum vafa. "Ég er nýbúinn að kaupa mér rosalega hlýja og góða vetrarúlpu. Ég hugsaði að ég þyrfti að kaupa mér mjög massíva úlpu því það var orðið svo kalt," segir Kristján og ekki seinna vænna því kuldaboli er aldeilis kominn á stjá í öllu sínu veldi.

"Ég keypti úlpuna í Dressman og lít því næstum því út eins og gaurarnir í Dressman-auglýsingunum. Þetta er ljós brún úlpa með hettu og það er loðkragi á hettunni. Hún heitir held ég Kanada og er rosa fín," segir Kristján sem reynir að komast hjá því að versla eins og alvörukarlmaður. "Ég versla ekki svo mikið. Ég reyni bara að kaupa mér föt þegar mig vantar föt. Ég er aldeilis engin fatafrík. Ég reyni samt að vera hagkvæmur í innkaupum og reyni að kaupa eitthvað flott og ódýrt. Það er eiginlega mitt mottó," segir Kristján sem kaupir sér örugglega ekki mikið í bráð þar sem úlpan góða er í algjöru uppáhaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×