Innlent

Samfylkingin stærsti flokkurinn

Vinstriflokkarnir tveir myndu bæta mikið við sig og ná meirihluta á alþingi ef kosið væri nú. Þetta kemur fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem gerð var nú um helgina. Samkvæmt skoðanakönnuninni myndi Framsóknarflokkur fá átta þingmenn, sem er fækkun um fjóra. Sjálfstæðisflokkur fengi 19 þingmenn, sem er þremur færri en flokkurinn hefur nú. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu því 27 þingmenn, sem nægir ekki til að halda meirihlutanum. Frjálslyndi flokkurinn myndi fá tvo þingmenn í stað fjögurra. Samfylking yrði stærsti flokkurinn á þingi með 23 þingmenn og myndi bæta við sig þremur. Þingmönnum Vinstri grænna myndi fjölga mikið, verða ellefu í stað fimm nú. Viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar við þessari könnun eru mjög á svipaðan veg, að könnunin sýni að möguleiki væri á vinstristjórn ef boðað yrði til kosninga nú. Össur segir einnig að hann hafi búist við því fyrir fram að vandræðagangur Reykjavíkurlistans hefði áhrif. Einar K. Guðfinnsson segir könnunina vonbrigði fyrir sjálfstæðismenn og Hjálmar Árnason undrast lítið fylgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×