Fastir pennar

Gú moren

Birtist í DV 4. júní 2004 Núna um helgina þóttist ég vera orðinn viss um að Ólafur Ragnar myndi ekki skrifa undir fjölmiðlalögin. Davíð var búinn að ögra honum næstum upp á hvern dag. Hvað vissi Davíð eftir fundinn á Bessastöðum? Í atkvæðaskýringu sinni á Alþingi þegar lögin voru samþykkt horfði hann í sjónvarpsvélina og las upp úr gamalli ræðu eftir Ólaf. Þingheimur hlýddi undrandi á, það var líkt og Davíð talaði til Bessastaða - "komdu bara, góði!" Í viðtali í Viðskiptablaðinu var Davíð enn í sama ham - fór enn einu sinni að tala um að forsetinn væri vanhæfur vegna tengsla við Baug. Eftir atburði síðustu sólarhringa getur mann ekki annað en grunað að Davíð hafi vitað hvert stefndi. Það er líkt og hann hafi vitandi vits verið að mana forsetann. Hvers vegna? Er honum farið að leiðast svona mikið? Er hann haldinn slíku óyndi að hann þráir stríð fremur en frið? Davíð lagði upp í herför með þann ásetning að knésetja nokkra fjölmiðla - gleymum ekki að hann vildi fara að banna dagblöð! Hann lét ekki stöðva sig þótt fylgið hryndi og þjóðin væri á móti. Hann er að sönnu mikill stríðsmaður og vanur að hafa sigur - en eftir á að hyggja finnst manni það hálfgert stjórnleysi hjá forystu Sjálfstæðisflokksins að hafa leyft þessu að ganga svona langt. Því auðvitað var ekki nokkur ástæða til að fresta ekki fjölmiðlamálinu fram á haust - lögin eiga að taka gildi eftir tvö ár! Það hefði máski átt að vera setning vetrarins þegar Davíð sagði stundarhátt í þinginu á föstudaginn: "Búið!" En líklega eru það öfugmæli. Það eina sem er búið er að Davíð sest sennilega ekki framar í stól forsætisráðherra. --- --- --- Í grein um daginn líkti ég því að endurvekja málskotsréttinn við að fara út í kirkjugarð til að athuga hvort líf leyndist með líki. Nú er líkið komið heim á Bessastaði og viti menn - það dregur andann. Maður bíður í ofvæni eftir skoðanakönnun, en tilfinning manns er sú að þjóðin fagni því að fá loks að segja skoðun sína á einhverju máli. Það verður sjálfsagt skipuð einhver lögfræðinganefnd - kæmi meira að segja ekki á óvart þótt Jón Steinar eigi sæti í henni. En leiðangur til að sýna fram á að forsetinn hafi ekki málskotsréttinn verður erindisleysa. Það áttaði Halldór Ásgrímsson sig á þegar hann kallaði blaðamenn á sinn fund strax á miðvikudaginn og sagði - auðvitað verður þjóðaratkvæðagreiðsla. Lögskýringar Þórs Vilhjálmssonar um að ráðherra fari með synjunarvald forsetans virðast í besta falli sérviskulegar. Reynir Axelsson, einn helsti rökfræðingur þjóðarinnar, afgreiddi þær í eitt skipti fyrir öll í grein sem hann skrifaði í Moggann í síðustu viku. Reynir taldi upp rökvillurnar í máli Þórs - og dró þá ályktun að hann hefði látið stjórnast af akademískri gamansemi þegar hann ritaði margívitnaða grein um þetta. Málið snýst heldur ekki bara um fjölmiðlafrumvarpið lengur. Hvert sem maður fer er verið að tala um ráðherraræði, ofurvald framkvæmdavaldsins, ójafnvægi milli valdþátta, valdhroka, yfirgang. Það er alveg þarflaust að flækja umræðuna um hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Þjóðin virðist afar sátt við að fá að segja skoðun sína með einföldum meirihluta. Það er heldur engin ástæða til annars en að kjósa sem fyrst - líkt og stjórnarskráin kveður á um. Allt bendir til þess að kjörsókn gæti orðið prýðileg. Vigdís Finnbogadóttir hálfpartinn gekk frá málskotsréttinum með því að nota hann ekki á tíma EES-samningsins. Davíð og Jón Baldvin lögðust á hana eins og frekjuhundar. Hún gugnaði. Í dag væri fráleitt að menn kæmust upp með að undirgangast slíkan samning án þjóðaratkvæðis. Það er búið að mála það hryllilega dökkum litum að allt fari úr skorðum ef forseti beitir synjunarvaldinu. Þetta segja ráðherrar sem eru að verja vald sitt með kjafti og klóm. En ákvörðun forsetans er vinsæl vegna þess að hún felur í sér kröfu um opnara lýðræði, að almenningi sé treyst, um að lýðræði sé meira en að kjósa fulltrúa á þing á fjögurra ára fresti. Eftir miðvikudaginn er voða erfitt fyrir stjórnmálamenn að ganga fram og segja að þjóðin eigi ekki að fá að segja hug sinn. --- --- --- Nú er spurning upp á hverju Davíð ætlar að brydda? Þegar þessi grein er skrifuð er hann enn ekki búinn að tjá sig. Maður bíður eftir því að honum takist að snúa leiknum sér í hag eins og oftast áður. Davíð er miklu slóttugri stjórnmálamaður en Ólafur Ragnar. Maður hefur búið svo lengi í ríki Davíðs að maður trúir því að hann sigri alltaf að lokum. Davíð hefur raunar lítið sést í fjölmiðlum í vetur; hann gerði allavega rétt í því að koma ekki fullur af bræði í sjónvarp á miðvikudaginn. Þá hefði þetta allt getað farið í vaskinn hjá honum. En maður hlýtur að ætla að jafn vanir menn og skipa forystu Sjálfstæðisflokksins hafi hugsað út í að þessi staða kynni að koma upp - að þeir hafi eitthvert plan sem vit er í. Á miðvikudeginum sögufræga kusu þeir að þegja Davíð, Björn og Geir. Minni spámenn voru sendir út af örkinni - til að gá hvort þeir mundu stíga á jarðsprengju. Í löngum leiðara í Morgunblaðinu í gær var gefinn ákveðinn tónn. Þar var rætt um "þann mann, sem nú gegnir embætti forseta". Styrmir segist trúa því að nú muni þjóðin sýna forvígismönnum auðhringja að hún hafi "síðasta orðið" - áður var það þingið. Þetta er líklega óskhyggja. Ritstjórinn skrifar eins og gamall sósíalisti, sífagnandi afrekum Pútíns í Rússlandi. Það er til saga um manninn sem sáði í akur óvinar síns - hér er maðurinn sem breyttist í óvin sinn og tók ekki eftir því. En þeir hafa auðvitað nokkur rök, misgóð. Flest höfum við fengið að heyra áður: Að málið sé ekki nógu stórt til að verðskulda þetta fjaðrafok. Að verið sé að gera embættið pólitískt, eyðileggja sameiningartákn þjóðarinnar. Að forsetinn verndi auðhringa en ekki öryrkja. Að hann hafi komið upp um sig sem liðsmaður stjórnarandstöðunnar. Að hann sé vanhæfur, liðsmaður Baugs. Það er samt spurning hvort þessi rök bíti - eins og stemmingin er í dag er maður alls ekki viss. Það virðist svo alveg útséð um að hægt sé að telja þjóðinni trú um að vit sé í hvernig farið var að því að setja lögin um fjölmiðlana. Þá gæti verið þrautalendingin að fara bara að tala um góðæri, stöðugleika og velsæld undir handleiðslu Davíðs í mörg ár. Viljið þið fórna því? Og fá hvað í staðinn - sundrungu? Þetta er einfaldur málstaður sem hefur þrælvirkað áður. Eitt óvænt útspil gæti þó litið dagsins ljós og ruglað þessu öllu, að botn fari að fást í lögreglurannsóknina gegn Baugi. Sjálfstæðismenn sem ég hef talað við hafa gefið í skyn að þetta kunni að vera á næsta leiti - málið myndi vissulega horfa öðruvísi við ef birtust myndir af Jóni Ásgeiri þar sem hann er leiddur burt í lögreglufylgd. Hins vegar hefur Davíð afar lítið svigrúm til að fara í drulluslag við Ólaf Ragnar. Til þess á hann ekki nógu mikla inneign hjá þjóðinni lengur - hann hefur gengið allverulega á hana í vetur. Sjálfstæðisflokkurinn og sérstaklega hann standa mjög illa í skoðanakönnunum. Í síðustu Gallupkönnun vildu einungis 26 prósent að Davíð héldi áfram sem forsætisráðherra. Eins og sakir standa bendir flest til þess að Ólafur - sem er að sönnu miklu minni afreksmaður í pólitík - sé mun vinsælli stjórnmálamaður. --- --- --- Ég hitti einn dyggasta stuðningsmann Davíðs á Lækjartorgi á miðvikudaginn. Hann var að koma úr 10/11 með poka (svik að versla þar?) Hann sagði að varla þýddi annað en að sætta sig við orðinn hlut - sagðist skynja löngun hjá þjóðinni til að gefa Davíð "gú moren". Sagði svo að það væru erfiðar vikur og mánuðir framundan fyrir sig og flokkinn. En útskýrði svo að þó þeir myndu tapa þessari orrustu, þá myndu þeir örugglega vinna stríðið. Forsetakosningar eftir aðeins þrjár vikur setja líka strik í reikninginn. Eins og stendur er ekkert ólíklegt að Ólafur fái blússandi umboð í kosningunum. Kosningar sem enginn hafði áhuga á hafa allt í einu stórpólitíska þýðingu. Kjörsóknin gæti bara orðið góð. Maður sér þó tæplega að andstæðingar forsetans geti fengið fólk til að fjölmenna á kjörstað til að kjósa Baldur Ágústsson. Ólafur gæti semsé styrkt stöðu sína verulega. Eftir það gæti verið erfitt að ná sátt um stjórnarskrárbreytingar til að taka málskotsréttinn af forsetanum. Eitt sunnudagskvöld sumarið 1996 sat ég á Kaffibarnum. Þar var þá staddur hópur af enskum poppstjörnum í miklum fögnuði, hljómsveitirnar Blur og Pulp með fylgdarliði. Þá gengu inn Mörður Árnason og Karl Th. Birgisson við þriðja mann. Þeir sungu við raust "Sjá dagar koma", yfirgnæfðu Damon Albarn og Jarvis Cocker - stúlkan sem sat á hné bassaleikarans Alex mundi allt í einu að hún var bara Íslendingur. Daginn áður hafði Ólafur Ragnar verið kosinn forseti. Síðan þá hefur mér oft fundist að ofurkæti þeirra þetta kvöld hafi verið fánýt - sérstaklega eftir að Ólafur varð æ meiri fígúra og fór að lifa lífi sínu í anda Séðs og heyrðs. En kannski rættust vonir þeirra loks í fyrradag? Bubbi kom askvaðandi á Austurvelli og faðmaði mig, menn þeyttu bílflautur, gáfu sigurmerki og um bæinn fór að berast sms-ið: Til hamingju með forsetann!


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×