Erlent

Ágreiningur innan ESB

Ágreiningur er uppi um hver á að verða næsti formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og eins hvernig endanleg útgáfa nýrrar stjórnarskrár sambandsins á að verða. Forseti Frakklands segir að ekki verði fallist á frekari útþynningu stjórnarskrár sambandsins. Samruninn er sem fyrr ástæða ágreinings innan Evrópusambandsins. Þjóðverjar og Frakkar hafa jafnan verið í forsvari þeirra þjóða sem ganga vilja lengst í að sameina Evrópu en Bretar hafa viljað fara hægar í sakirnar. Þessi grundvallarágreiningur kemur berlega fram í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins og ákveða hver skuli taka við af Romano Prodi sem formaður framkvæmdastjórnar sambandsins. Frakkar og Þjóðverjar vilja að Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu, taki við af Prodi en Bretum þykir hann of hallur undir samruna, auk þess sem hann er andstæðingur Íraksstríðsins. Það fellur hvorki Bretum né Ítölum vel í geð. Chris Patten, rektor við Oxfordháskóla, er vonarstjarna Breta. Frakkar og Þjóðverjar fallast hins vegar ekki á hann, þar eð þeir telja ekki rétt að formaður framkvæmdastjórnar sambandsins komi frá landi sem ekki er tilbúið að taka að öllu leyti þátt í samruna Evrópu. Jacques Chirac, forseti Frakklands, gagnrýndi í dag afstöðu Breta til Evrópusambandsins og sagði hana hamla möguleikum sambandsins, sérstaklega í skatta- og félagsmálum. Hann sagði frekari útþynningu á stjórnarskrá Evrópusambandsins ekki koma til greina. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands hefur tekið undir málflutning Chiracs og segir tímabært að íhaldsþjóðir innan Evrópusambandsins hætti að standa í vegi fyrir framþróun þess.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×