Erlent

Saddam ekki viðriðinn al-Kaída

George Bush forseti Bandaríkjanna og Dick Cheney varaforseti gera alvarlegar athugasemdir við niðurstöður nefndar um hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september. Þeir mótmæla þeirri skoðun að engin tengsl hafi verið á milli Saddams Hússeins og al-Kaída. Í frumskýrslu nefndar um hryðjuverkin 11. september segir meðal annars að engin tengsl hafi verið á milli Íraksstjórnar og al-Kaída. Þessar upplýsingar koma sér illa fyrir stjórnvöld í Bandaríkjunum enda hafa þau lagt mikla áherslu á þessi tengsl til að réttlæta innrásina í Írak. George Bush og Dick Cheney draga niðurstöður nefndarinnar í efa. Bush segir stjórnvöld aldrei hafa haldið því fram að Írakar hafi átt beinan þátt í árásunum, en hins vegar sé ljóst að þeir hafi stutt al-Kaída. Cheney gengur lengra en Bush og segir ekki útilokað að stjórnvöld í Írak hafi komið með beinum hætti að árásunum 11. september. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að bandarísk stjórnvöld hefðu mátt átta sig á því að árásirnar væru yfirvofandi. Einnig að öll viðbrögð, daginn sem árásirnar áttu sér stað, hafi verið ómarkviss og handahófskennd. Loftvarnir Bandaríkjanna hafi verið gjörsamlega óviðbúnar og illa skipulagðar. Þá segir jafnframt að Bush hafi gefið grænt ljós á að flugvélarnar, sem notaðar voru í hryðjuverkin, yrðu skotnar niður af herflugvélum ef með þyrfti en þau fyrirmæli hafi ekki borist yfirmönnum flughersins fyrr en eftir að fjórðu vélinni var grandað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×