Erlent

Ekki sátt innan ESB

Eftir að hafa setið í tólf stundir á fundi gáfust leiðtogar Evrópusambandsríkjanna upp á að reyna að ná samkomulagi um nýjan forseta framkvæmdastjórnar sambandsins. Þeim tókst ekki heldur að ná samkomulagi um nýja, evrópska stjórnarskrá en drög að henni lágu fyrir fundi leiðtoganna. Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu, naut einna mests stuðnings, meðal annars Frakka og Þjóðverja, en Bretar og Ítalir vilja ekki samþykkja hann sökum andstöðu hans við Íraksstríðið fyrir ári. Jacques Chirac, forseti Frakklands, gagnrýndi Tony Blair fyrir andstöðuna, og sagði hann fórna Evrópusambandinu til að friðþægja andstæðinga sambandsins heima fyrir. Anders Fogh Rasmussen, og Jean-Claude Juncker, forsætisráðherrar Danmerkur og Lúxemborgar, þykja einnig koma til greina, auk þess sem Jose Durao Barosso, forsætisráðherra Portúgals, gæti reynst málamiðlun sem allir gætu sætt sig við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×