Erlent

Andspyrnuflokkar sigurvegarar

Litlir andspyrnuflokkar eru sigurvegarar Evrópuþingkosninganna sem fram fóru um helgina. Sigur þeirra er talinn til marks um óánægju kjósenda með stjórnvöld og stóra flokka. Að kosningaþátttaka hafi ekki verið mikil kemur ekki á óvart þar sem þátttaka í Evrópuþingskosningum hefur aldrei verið góð. Engu að síður eru það vonbrigði að þátttakan í þeim löndum, sem nýgengin eru í sambandið, hafi ekki náð nema tuttugu og sex prósentum. Aðrir telja að ríkisstjórnir Evrópusambandslandanna verði nú að reyna útskýra fyrir þegnum sínum hvað sambandið snúist um, hvaða máli það skipti og þá um leið hvað kosningar til Evrópusambandsins þýði. Ekki sé hægt að fólk ýmist sniðgangi kosningarnar eða noti tækifærið til að gefa ráðamönnum á baukinn vegna innanríkismála eins og nú var raunin. Verst voru tíðindin fyrir nokkra af þekktustu stjórnamálamönnum álfunnar, stjórnarherra í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu. Allir fengu þeir skell og skýr skilaboð frá kjósendum sínum. Einna mest var áfallið fyrir Gerhard Shröder í Þýskalandi sem er nú enn verr staddur en áður, og var staða hans þó ekki efnileg fyrir. Á Bretlandi vakti sigur breska Sjálfstæðisflokksins einnig athygli en hann hlaut mest fylgi á eftir Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum. Einn pólitískra andstæðinga Tonys Blairs forsætisráðherra segir skilaboð bresku þjóðarinnar skýr og ótvíræð; forsætisráðherrann geti farið á vit Evrópusambandsins en þjóðin fari ekki með honum. Hún vilji landið sitt aftur úr höndum hinnar spilltu og einræðissinnuðu stjórn í Brussel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×