Viðskipti innlent

Fyrirtæki Róbert Wessman tvöfaldar umsvif í Suður-Kóreu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Róbert Wessmann forstjóri með lykilstjórnendum Alvogen í Kóreu og stjórnendum Dream Pharma. Mynd/Alvogen
Róbert Wessmann forstjóri með lykilstjórnendum Alvogen í Kóreu og stjórnendum Dream Pharma. Mynd/Alvogen
Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur keypt suðurkóreska lyfjafyrirtækið Dream Pharma fyrir um 190 milljónir Bandaríkjadala eða tæplega 22 milljarða íslenskra króna í gegnum dótturfyrirtæki sitt Kunwha í Suður-Kóreu. Kaupin eru sögð vera liður í uppbyggingu félagsins í Suður-Asíu en áður hefur Alvogen keypt lyfjafyrirtækin Kunwha í Suður-Kóreu og Lotus í Taívan. Starfsmönnum fyrirtækisins fjölgar við þetta um 400 og verða því samtals um 2.400, þar af flestir í Suður-Kóreu.

Róbert Wessmann, forstjóri Alvogen, segir ánægjulegt að ljúka kaupunum á Dream Pharma sem rúmlega tvöfaldi umsvif félagsins í Suður-Kóreu.

„Við höfum byggt upp okkar starfsemi í ellefu löndum í Suður-Asíu,“ segir Róbert.

Hann segir samheitalyfjageirann standa á tímamótum í Asíu.

„Það er mikið af fyrirtækjum að keppa á sínum heimamarkaði en í dag er ekkert alþjóðlegt samheitalyfjafyrirtæki sem hefur byggt upp starfsemi sína í Suður-Asíu. Við stefnum að því að Alvogen verði í hópi fimm stærstu fyrirtækja heims á þessu markaðssvæði innan fárra ára.“

Lyfjafyrirtækið Dream Pharma sérhæfir sig meðal annars í framleiðslu og sölu lyfja gegn offitu og hefur um 35 prósenta markaðshlutdeild á því sviði í Suður-Kóreu samkvæmt upplýsingum frá Alvogen. Alls hefur fyrirtækið um hundrað lyf á markaði sem skarast ekki á við lyf Kunwha.

Alvogen er í dag með starfsemi í 34 löndum, þar af ellefu í Suður-Asíu, og hefur árlegur tekjuvöxtur félagsins verið um 78 prósent að jafnaði frá árinu 2009 þegar Róbert kom til liðs við félagið. Bandaríkjamarkaður er stærsti markaður Alvogen. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er innan Alvogen talið að árstekjur komi til með að verða um 100 milljarðar króna á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×