Viðskipti innlent

Fulltrúar Brims segja stjórnarkjör hafa verið fullkomlega lögmætt

Atli Ísleifsson skrifar
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum gerir út níu skip til uppsjávar-, tog- og netaveiða.
Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum gerir út níu skip til uppsjávar-, tog- og netaveiða. vísir/stefán
Fulltrúar Brims, sem er minnihlutaeigandi í Vinnslustöðinni, segja stjórnarkjör í fyrirtækinu, sem fram fór á aðalfundi þann 6. júlí, hafa verið fullkomlega lögmætt.

Í tilkynningu frá Brimi segir að fulltrúar stærsta hluthafans í Vinnslustöðinni, Seilar, hafi stigið fram í fjölmiðlum um helgina og lýst því yfir að farið yrði fram á að stjórn, sem ekki lengur hafi umboð til að starfa fyrir hönd félagsins, boði til nýs hluthafafundar þar sem enn og aftur eigi að kjósa nýja stjórn yfir félagið. Þessu mótmæla fulltrúar Brims harðlega.

„Niðurstaða fyrra stjórnarkjörs á aðalfundi félagsins 6. júlí sl. var fullkomlega lögmæt og aðeins á eftir að varpa hlutkesti um það hver tekur sæti sem fimmti stjórnarmaður félagsins í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Það er mikilvægt að forðast valdníðslu og virðingarleysi gagnvart lýðræðislegum kosningum. Heppilegast væri að fulltrúar meirihlutans með Harald Gíslason í broddi fylkingar  sættu sig við niðurstöðu hins fyrra stjórnarkjörs, þrátt fyrir að niðurstaðan hafi ekki verið þeim þóknanleg, svo réttkjörin stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. geti hafið störf hið fyrsta með hagsmuni félagsins, starfsmanna og annarra sem því tengjast að leiðarljósi. Slík niðurstaða er sanngjörn fyrir alla hluthafa, ekki bara meirihlutann,“ segir í tilkynningunni.

Fara fulltrúar Brims fram á að fulltrúar meirihlutans bíði niðurstöðu yfirstandandi rannsóknar Hlutafélagaskrár á gjörðum þeirra á síðasta aðalfundi áður en boðað verði til hluthafafundar. Hlutafélagaskrá sé úrskurðaraðili í svona málum samkvæmt hlutafjárlögum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×