Viðskipti innlent

Frestuðu söluferli Extreme Iceland

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björn Hóarsson og synir hans Kári og Steinar eiga allt hlutafé Extreme Iceland.
Björn Hóarsson og synir hans Kári og Steinar eiga allt hlutafé Extreme Iceland.
Eigendur Extreme Iceland tóku fyrir áramót ákvörðun um að fresta söluferli þar sem bjóða átti fjárfestum að kaupa allt frá minnihlutaeign í ferðaþjónustufyrirtækinu og upp i allt hlutafé þess.

Er nú horft til þess að fjárfestakynning í gegnum Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar fari fram í byrjun mars eða eftir að ársreikningur Extreme Iceland fyrir árið í fyrra liggur fyrir.

„Við ætlum að hafa reikninginn kláran 15. febrúar og þá tekur við uppfærsla á áreiðanleikakönnun og þá verður þessi kynning 1. mars í gegnum Virðingu,“ segir Kári Björnsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Extreme Iceland, í samtali við Markaðinn.

Útlit er fyrir að tekjur Extreme Iceland, sem hóf starfsemi árið 2010, í fyrra hafi numið um 2,5 milljörðum króna og því fimmfaldast á einungis tveimur árum.

Björn Hróarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, stofnaði félagið og er það í dag í eigu hans og sonanna Kára og Steinars í gegnum félag þeirra Umbrella ehf. Samkvæmt ársreikningi Extreme Iceland fyrir 2015 var fyrirtækið þá rekið með 108 milljóna króna hagnaði samanborið við 15 milljónir árið áður. Extreme Iceland býður meðal annars upp á norðurljósa-, jökla og jeppaferðir.

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×