Viðskipti innlent

Freista þess að aflétta gjaldeyrishöftum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Seðlabankinn og Samtök iðnaðarins hafa sett af stað prófverkefni til að aflétta gjaldeyrishöftunum og verður milljörðum í aflandskrónum hleypt í fjárfestingu á Íslandi. Viðskiptaráðherra segir þetta skref í átt að varanlegu afnámi haftanna.

Samtök iðnaðarins boðuðu til sérstakrar kynningar á átaksverkefninu Ári nýsköpunar í húsakynnum Marels í dag. Í ávarpi sínu sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri samtakanna, að þau væru í sérstöku prófverkefni með Seðlabankanum sem miðaði að því að koma aflandskrónum í vinnu í fjárfestingum á Íslandi. Nokkuð sem hefur verið ómögulegt hingað til vegna gjaldeyrishaftanna en óheimilt er að flytja íslenskar krónur af erlendum reikningum á reikninga íslenskra bankastofnana.

„Það er þannig að það eru fjárfestar sem eru fastir með aflandskrónur í Lúxemborg sem hafa haft áhuga á því að koma inn í mjög spennandi verkefni á Íslandi. Við höfum verið að vinna með Seðlabankanum til að finna út leiðir til þess að þetta muni ekki ógna markmiðum um stöðugleika krónunnar þegar höftunum verður aflétt. Ég held að það hylli undir mjög góða niðurstöðu í því á næstunni" segir Orri Hauksson.

Í hverju felast þessar lausnir? „Þær felast í því að hægt verður að tengja saman aflandskrónur við tiltekin langtímaverkefni," segir Orri. Um er að ræða milljarða króna sem koma til með glæða íslenskt atvinnulíf.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að þetta sé skref í átt að afnámi haftanna.

Eruð þið vongóð um að ef þetta gefist vel þá geti þetta flýtt fyrir afnámi haftanna? „Það er mjög mikilvægt að finna þessum aflandskrónum farveg þannig að þær vinni til að skapa atvinnu, tækifæri og vöxt í íslensku efnahagslífi. (...) Hvert skref sem tekst að þessu leyti, losar um ósjálfbæra stöðu í krónueignum og finnur slíkum eignum farveg til lengri tíma, skilar okkur nær því að geta aflétt höftunum," segir Árni Páll.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×