Innlent

Framsóknarmenn í Reykjanesbæ styðja Sigurð Inga

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vaktaskipti urðu í forsætisráðuneytinu í apríl.
Vaktaskipti urðu í forsætisráðuneytinu í apríl. vísir/ernir
Á aðalfundi Framsóknarfélags Reykjanesbæjar sem haldinn var fyrr í kvöld var skorað á Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra að gefa kost á sér til formanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi. Sigurður Ingi var gestur fundarins en samkvæmt heimildum Vísis hafði hann vikið af fundi áður en yfirlýsingin var samþykkt.

Fyrr í vikunni skoraði Framsóknarfélag Borgarfjarðar og Mýra á Sigurð Inga að gefa kost á sér til formennsku. Flokksþing Framsóknarflokksins verður haldið 1.-2. október næstkomandi í Háskólabíó og þar verður kosið um forystusveit flokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson er varaformaður flokksins og hefur gegnt embætti forsætisráðherra síðan í apríl á þessu ári eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður flokksins, sagði af sér embættinu. 

Talið er að Sigurður Ingi hafi meirihluta þingflokks Framsóknarflokksins að baki sér og þá hefur Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður flokksins sagt það betra fyrir Framsóknarflokkinn að Sigurður Ingi vermi formannssætið í stað Sigmundar Davíðs.  Þá birtust fyrr í vikunni nafnlaus skrif á Pressunni og samkvæmt þeim styður Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, Sigmund Davíð ekki.


Tengdar fréttir

Stirt milli formanns og forsætisráðherra

Menn eru sammála um að samræður á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina hafi verið hreinskiptar og hreinsað andrúmsloftið.

Guðni segir Sigmund geta skaðað Framsóknarflokkinn

Fyrrum formaður Framsóknarflokksins sagði af sér árið 2008 til að gæta hagsmuna flokksins. Hann telur hneykslismál formanns flokksins geta verið sem myllusteinn um háls flokksins í komandi kosningabaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×