Viðskipti innlent

Forstjóri PepsiCo fór fögrum orðum um Ölgerðina

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Indra Nooyi
Indra Nooyi
Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo og ein valdamesta kona veraldar, sótti hátíðarfund Ölgerðarinnar í dag. Þar talaði Nooyi um samfélagslega ábyrgð stórfyrirtækja.

Indra Nooyi er fimmti forstjóri PepsiCo en fyrirtækið er næst stærsti matvæla- og drykkjarframleiðandi veraldar. Nooyi er á meðal áhrifamestu og auðugustu einstaklinga veraldar. Hún sótti hátíðarfund Ölgerðarinnar í Þjóðleikhúsinu í dag. PepsiCo og Ölgerðin hafa átt í nánu samstarfi um árabil enda framleiðir Ölgerðin Pepsi og aðrar vörur PepsiCo hér á landi.

Nooyi ræddi sérstaklega um mikilvægi þess að efla starfsmenn og tengsl þeirra við fyrirtækið. Hún ítrekaði að nauðsynlegt sé að hugsa til langs tíma í stað þess að reyna að auka hagnað tímabundið.

„Ég skrifa reglulega bréf til starfsmanna PepsiCo. Ég segi þeim hvað mér liggur á hjarta, hvernig mér líður þegar barnið mitt fer í skólann. Þegar við bjóðum upp á fjölskylduvænt og einlægt umhverfi á vinnustað þá erum við í raun að mynda okkar eigin fjölskyldu innan fyrirtækisins,“ sagði Nooyi. „Þetta hefur borið árangur hjá PepsiCo og það sama á við hjá Ölgerðinni.“

Þá sagði hún Íslendinga vera í einstakri stöðu til að móta sjálfbæra framtíðarskipan.

„Sama hvaða áhrif fjármálahrun hefur á líf okkar þá er ég sannfærð um að raunverulegt hlutverk okkar sé að hugsa vel um starfsmenn okkar og umhverfi. Ábyrg fyrirtæki eru grundvöllur ábyrgðar í samfélaginu.“

Forstjórinn lofsamaði síðan íslenskri menningu og útrás hennar. Hún sér mikil sóknarfæri þegar blandan þín og blandan mín eru annars vegar.

„Ég held að heimsbyggðin sé að missa af miklu þegar Malt og Appelsín eru annars vegar. Þó svo að Ölgerðin standi í innflutningi þá held ég að nú sé kominn tími á útflutning.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×