Erlent

Forseti Venesúela losar sig við andstæðinga

Atli Ísleifsson skrifar
Nicolas Maduro tók við embætti forseta Venesúela árið 2013.
Nicolas Maduro tók við embætti forseta Venesúela árið 2013. Vísir/AFP
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hefur fyrirskipað að allir opinberir starfsmenn sem skrifað hafa undir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð forsetans í starfi skuli vera vikið úr starfi.

Ráðuneyti, opinberar stofnanir og sveitarstjórnir hafa fengið tveggja sólarhringa frest til að reka þessa andstæðinga forsetans.

Talsmaður Sósíalistaflokks Maduro greindi frá þessu þegar hann ræddi við fréttamenn í gærdag.

Fjölmiðlar og mannréttindasamtök segja að mörg hundruð opinberir starfsmenn hafi þegar verið látnir fara eftir að hafa skrifað undir undirskriftarsöfnunina.

Miklar efnahagslegar og félagslegar hrakfarir hafa gengið yfir landið síðustu ár og sakar stjórnarandstaðan Maduro um að bera ábyrgð.

Stjórnarskrá Venesúela gerir ráð fyrir að almenningur getið kosið um hvort forseti skuli sitja áfram þegar sex ára kjörtímabil hans er hálfnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×