Innlent

Flugvallarstarfsmenn semja og hætta við verkfall

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Kristján Jóhannsson, formaður FFR.
Kristján Jóhannsson, formaður FFR. vísir/daníel
Flugvallarstarfsmenn skrifuðu undir nýjan kjarasamning í kvöld hjá ríkissáttasemjara. Samningurinn á milli Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) og Isavia er til þriggja ára. Hann felur í sér svipaðar launahækkanir og verkalýðsfélög á almenna markaðnum sömdu um í lok desember við Samtök atvinnulífsins.

Það er 2,8 prósenta launahækkun á þessu ári, en þó að lágmarki 8 þúsund krónur. Kauptaxtar sem eru lægri en 230 þúsund á mánuði hækka um 1.750 krónur.

Á öðru og þriðja ári samningsins er samið um breytingar á launaflokkum og prósentuhækkanir. Hækkanir verða þó ekki meiri en sem nemur fjórum prósentum hvort ár fyrir sig.

Þar sem samið er til svo langs tíma er ákvæði í samningnum sem kveður á um að ef launahækkanir verða meiri á almenna markaðnum á síðari hluta samningstímans fái flugvallarstarfsmenn uppbætur.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í kvöld að launahækkanir í samningnum væru í línu við það sem aðrir hafa samið um á almenna markaðnum.

Kristján Jóhannsson, formaður FFR, tilkynnti undir kvöld í gær að boðuðu verkfalli starfsmanna á flugvöllum, sem átti að hefjast í morgun, hefði verið frestað til 22. maí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×