Innlent

Flugmanninum verður ekki vikið úr starfi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Í návígi við hraunjaðarinn í gær.
Í návígi við hraunjaðarinn í gær. vísir/skjáskot/auðunn
Ekki er búið að funda með flugmanni Reykjavík Helicopters sem lenti með erlenda ferðamenn við gosstöðvarnar í Holuhrauni síðastliðinn sunnudag. Til stendur að funda með honum í dag, en líkt og fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu í gær fullyrða forsvarsmenn fyrirtækisins að ábyrgðin sé alfarið flugmannsins.

Samkvæmt markaðsstjóra fyrirtækisins, Friðgeiri Guðjónssyni, stendur ekki til að víkja honum úr starfi en leitað verður skýringa á hvers vegna flugmaðurinn virti ekki lokanir við gosstöðvarnar.

Eins og greint var frá á Vísi í gær birti auðjöfurinn Goga Ashkenaz myndband af sér og föruneyti sínu bregða á leik við hraunjaðarinn. Lokanir inn á gosstöðvarnar hafa verið meira og minna í gildi frá miðjum ágústmánuði. Síðan þá hefur svæðið einungis verið opið fyrir vísindamenn og fjölmiðlafólk en hver og einn þarf að óska eftir sérstöku leyfi frá almannavörnum.

Fjölmörg dæmi eru þó um að fólk reyni að komast inn á svæðið í óleyfi og hefur það verið töluvert á milli tannanna á fólki að undanförnu. Þá hafa ýmsar umræður spunnist og ábendingar borist Vísi þess efnis að fyrirtæki birti myndir af fólki í návígi gosstöðvanna.  Veltir fólk því fyrir sér hvort um sé að ræða almenning eða fólk með tilskilin leyfi.

Friðgeir fullyrðir að þessi lending þeirra við gosstöðvarnar á sunnudag sé einsdæmi. Hundruð vísinda- og fjölmiðlamanna ferðist á vegum þeirra og þá séu vissulega teknar myndir af þessum ótrúlegu náttúruhamförum á jörðu niðri.

Málið er nú í rannsókn lögreglu, ásamt öðru sambærilegu máli.


Tengdar fréttir

Dönsuðu steinsnar frá eldgosinu

Goga Ashkenazi, milljarðamæringur frá Kazakstan, birti í fyrradag myndband af sér ásamt hópi fólks við gosstöðvarnar í Holuhrauni á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×