Viðskipti innlent

Flug á sex þúsund krónur: easyJet tvöfaldar umsvif sín hérlendis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Flugfélagið easyJet mun tvöfalda umsvif sín í flugi til og frá Íslandi næsta vetur. Þetta kom fram á blaðamannafundi félagsins sem fór fram í Upplýsingamiðstöð ferðamanna við Ingólfstorg nú fyrir skömmu. Með aukningunni verður easyJet næstumsvifamesta flugfélag á Íslandi á veturna.

Belfast, Genf og Gatwick-flugvöllur í Lundúnum voru einnig kynntir sem nýir áfangstaðir flugfélagsins og alls verða áfangastaðir easyJet því átta. Flugfélagið telur sig geta boðið ferðina frá 6000 krónum fyrir aðra leiðina með sköttum.

EasyJet áætlar að með þessum auknu umsvifum muni ferðamennirnir sem félagið flytur til landsins skilja eftir sig um 40 milljarða króna í gjaldeyristekjur. „Ákvörðun easyJet gæti því mögulega haft áhrif á spár um hagvöxt á næsta ári,“ segir í tilkynningu frá félaginu sem gerir ráð fyrir að flytja um 400 þúsund ferðamenn til landsins.

Einnig gerir það ráð fyrir að um 89% viðskiptavina easyJet verði erlendir á næsta ári og flestir þeirra verði með rúm fjárráð – „enda sé Ísland ekki ódýr áfangastaður.“ Flestir þeirra munu ferðast hingað að vetri til.

Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi,  kynnti áætlanir flugfélagsins á fundinum. Einnig tóku til máls Stuart Gill, sendiherra Bretlands og Grímur Sæmundsen, formaður SAF. Aðrir viðstaddir fundinn voru forstjóri og aðstoðarforstjóri Isavia, ásamt forsvarsmönnum Höfuðborgarstofu og Íslandsstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×