Erlent

Fjölskylda „Klukkudrengsins“ vill tvo milljarða og afsökunarbeiðni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglunni þótti klukkan líkjast sprengju og var drengurinn leiddur á brott úr skólanum í handjárnum.
Lögreglunni þótti klukkan líkjast sprengju og var drengurinn leiddur á brott úr skólanum í handjárnum. twitter
Fimmtján milljónir dala, um 2 milljarðar íslenskra króna, og afsökunarbeiðnir frá borgarstjóranum og lögreglustjóranum.

Þetta er það sem fjölskylda hins 14 ára gamla Ahmeds Mohamed fer fram á af borgar- og skólayfirvöldum - ellegar muni hún höfða mál.

Sjá einnig: Héldu að klukka væri sprengja og handtóku 14 ára pilt



Mohamed varð heimsfrægur á einni nóttu í fyrra þegar hann kom með heimatilbúna klukku í skólann sinn í Irving í Texas. Einn kennara hans hélt að um sprengju væri að ræða og gerði skólastjórnendum viðvart. Þeir hringdu svo á lögregluna. Ahmed var handtekinn, settur í handjárn og færður til yfirheyrslu.

Sjá einnig: Ahmed boðið í heimsókn í Hvíta húsið og til Facebook

Fjölskylda Mohameds sagði á sínum tíma að honum hafi verið vísað úr skóla í þrjá daga og lögreglustjóri Irving varði aðgerðir lögreglunnar og skólayfirvöld.

„Við búum á þannig tímum að það er ekki hægt að taka hluti eins og þennan í skólann.“

Mál Mohameds vakti heimsathygli, hann varð eitt vinsælasta umfjöllunarefni á Twitter um tíma og fjölmörg mikilmenni buðu honum gull og græna skóga; svosem Bandaríkjaforseti og Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.

Í bréfi lögmanns fjölskyldunnar segir að Mohamed hafi hlotið varanlegan andlegan skaða vegna handtökunnar og yfirheyrslu lögreglunnar sem stóð yfir á aðra klukkstund. Þá sé orðspor hans laskað „á alheimsvísu.“

Þar segir einnig að fjölskylda Mohameds hafi orðið fyrir miklu áreiti vegna málsins og að hún verði ætíð bendluð við sprengjugerð – „án nokkurra stoða í raunveruleikanum.“

Ef yfirvöld verða ekki við kröfu fjölskyldunnar innan 60 daga mun fjölskyldan fara með málið fyrir dómstóla.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×