Viðskipti innlent

Fimmföldun í útflutningi á ferskum þorski

Svavar Hávarðsson skrifar
Sveifla frá frystum fiski til fersks er áberandi um þessar mundir.
Sveifla frá frystum fiski til fersks er áberandi um þessar mundir. fréttablaðið/GVA
Gríðarleg aukning hefur orðið á útflutningi ferskra þorskflaka og -bita á síðastliðnum 15 árum. Á milli áranna 1999 og 2014 óx útflutningurinn úr 4.940 tonnum í 23.245 tonn og útflutningsverðmæti úr 5,8 milljörðum í 28 milljarða króna. Þetta kemur fram í skýrslu Arion banka um stöðu og framtíð íslensks sjávarútvegs sem kom út fyrir helgi.

Fersk flök og bitar verða sífellt stærri hluti verðmætasköpunar úr þorski, eða sem samsvarar fimmföldun á 15 árum. Það hlutfall sem ferskar afurðir skapa af útflutningsverðmæti annarra tegunda hefur einnig aukist, en árið 2014 voru 33% útflutningsverðmætis ýsu vegna ferskra afurða, 13% karfa, 43% steinbíts og 10% ufsa.

Í skýrslunni segir að Frakkland er í dag langstærsti kaupandi ferskra íslenskra sjávarafurða en þangað voru fluttar út ferskar þorskafurðir fyrir 12,6 milljarða króna árið 2014. Ferskar þorsk­afurðir til Frakklands skapa rúman þriðjung útflutningstekna alls ferskfisks. Útflutningur ferskra afurða til Frakklands hefur raunar aukist mjög hratt að undanförnu, sjöfaldast síðustu sex árin, úr 1.500 tonnum árið 2008 í um það bil 10.000 tonn árið 2014. Árið 2014 voru mikilvægustu markaðslönd ferskra þorskafurða, á eftir Frakklandi, Bretland (4,8 milljarðar króna), Belgía (4,5 milljarðar króna) og Bandaríkin (3,2 milljarðar króna).

Eftir mikinn samdrátt árin 2007-2011 hefur útflutningur ferskra þorskafurða til Bandaríkjanna aukist hratt undanfarin fjögur ár. Þar spilar inn í samdráttur í þorskveiðum við austurströnd Bandaríkjanna, bættir flutningar til Bandaríkjanna frá Íslandi og aukin framleiðsla ferskra afurða hér á landi, segir í umfjöllun bankans. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×