Viðskipti innlent

Fimm fyrirtæki tilnefnd markaðsfyrirtæki ársins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Frá verðlaunaafhendingunni á síðasta ári.
Frá verðlaunaafhendingunni á síðasta ári.
Markaðsverðlaun ÍMARK 2014, samtaka markaðsfólks á Íslandi, verða afhent fimmtudaginn 6. nóvember á Hótel Hilton. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun veita markaðsmanni og markaðsfyrirtæki ársins 2014 verðlaunin.

Að þessu sinni eru fimm fyrirtæki tilnefnd til verðlaunanna Markaðsfyrirtæki ársins: Íslandsbanki, Landsbankinn, Nova, Ölgerðin og Össur. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á líðandi ári og sannað þykir að sýnilegur árangur hafi náðst. Valið byggir á ítarlegu ferli dómnefndar þar sem lagt er mat á fagmennsku við markaðsstarfið, árangur og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar.

Verðlaunin Markaðsmaður ársins eru veitt einstaklingi, sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári. Við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu.

ÍMARK hefur veitt Markaðsverðlaunin frá árinu 1991 og eru verðlaunin afhent í nóvember ár hvert. Markmið verðlaunanna er að stuðla að aukinni fagmennsku í markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja.

Grímur Sæmundssen framkvæmdastjóri Bláa Lónsins var valinn Markaðsmaður ársins 2013.

Að hans mati er það mikilvægasta við verðlaunin sú viðurkenning og hvatning sem verðlaunin fela í sér til allra starfsmanna fyrirtækisins. „Á þessu ári munum við taka á móti 700.000 gestum, upplifun þeirra er einn mikilvægasti þáttur markaðssetningar okkar.“

Dominos var valið Markaðsfyrirtæki ársins 2013. Magnús Hafliðason markaðsstjóri Dominos segir það hafi verið mikill heiður fyrir markaðsstarf fyrirtækisins að hljóta verðlaunin.

„Þau hafa hvatt okkur til þess að halda áfram og gera enn betur á komandi árum,“ segir hann.

María Hrund Marinósdóttir markaðsstjóri VÍS og fulltrúi í stjórn ÍMARK mun stýra dagskrá verðlaunahendingarinnar. Þá munu Grímur Sæmundssen framkvæmdastjóri Bláa Lónsins og markaðsmaður ársin 2013 og Dr.

Þórhallur Guðmundsson dósent í markaðsfræðum við Háskóla Íslands flytja erindi. Hádegismatur verður í boði og skráning fer fram á vef ÍMARK.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×