Viðskipti innlent

Fer vikulega í bolta með Svíkingunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eggert Þór Kristófersson
Eggert Þór Kristófersson
Eggert Þór Kristófersson, fjármálastjóri N1, var í síðustu viku ráðinn forstjóri félagsins. Hann tekur við af Eggerti Benedikt Guðmundssyni sem sinnti starfinu í tæp þrjú ár.

Eggert Þór starfaði hjá Íslandsbanka og Glitni fram til ársins 2008. Þá gekk hann til liðs við Sjávarsýn, sem er eignarhaldsfélag Bjarna Ármannssonar, og starfaði þar við fjárfestingar og ráðgjöf. Eggert vann að endurskipulagningu N1 eftir bankahrun og tók við sem fjármálastjóri að því loknu.

Eggert segir að miklar breytingar hafi verið gerðar á rekstri N1 á liðnum árum. „Ég held að það sé klárlega meiri fókus á kjarnareksturinn. Sem er hefðbundið íslenskt olíufélag sem er að reka stöðvar um allt land og þjónusta sjávarútveg, verktaka, iðnað og bændur. Þetta er svolítið svona „back to basics“,“ segir Eggert.

Aðspurður segir hann að hefðbundnar bensínstöðvar séu líka að verða meira eins og þægindavöruverslanir. „Svipað og 7-11 sem maður sér erlendis,“ segir hann. Bensínstöðvar séu því orðnar að verslunum sem fólk geti komið við í þegar vantar örfáa nauðsynjahluti og þarf ekki að fara langa leið til að sækja þá.

Eggert Þór býst ekki við að hann muni eiga minni tíma aflögu núna þegar hann er orðinn forstjóri. „Það held ég ekki. Fjármálastjórastarfið er mjög erilsamt. Það er eiginlega jafn erilsamt og forstjórastarfið,“ segir Eggert, en tekur þó fram að það sé ný upplifun fyrir sig að vera forstjóri.

Eggert Þór er mikill íþróttaáhugamaður og þó sér í lagi knattspyrnuáhugamaður. „Ég er uppalinn í Ólafsvík og við spilum alltaf saman einu sinni í viku, gamlir Ólsarar. Félagið Víkingur í Ólafsvík er knattspyrnufélag bæjarins en við köllum okkur Svíkinga, suðurhluti Víkinganna,“ segir hann. Hann segir að þeir félagarnir hafi spilað saman síðan 1988. „Það er kannski aðeins farið að hægja á okkur en við erum mjög góðir í huganum,“ segir Eggert og bætir við að þeir hittist líka reglulega til að horfa á fótbolta.

„Svo á ég fjögur börn og konu þannig að það er nóg að gera í því,“ segir Eggert en hann er giftur Ágústu Dröfn Kristleifsdóttur leikskólakennara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×