Viðskipti innlent

Félag Svanhildar Nönnu með 3,5 milljarða í eigið fé

Hörður Ægisson skrifar
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir. vísir/anton brink
Félagið K2B fjárfestingar ehf., sem er í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur fjárfestis, skilaði rúmlega 25 milljóna króna hagnaði í fyrra borið saman við 360 milljóna króna hagnað árið áður.

Í nýbirtum ársreikningi kemur fram að eignir fjárfestingafélagsins hafi numið tæplega 3,8 milljörðum í árslok 2016. Þar munar mestu um eignarhluti í öðrum félögum og verðbréf upp á samtals 3,3 milljarða króna. Einu skuldir félagsins eru við tengda aðila að fjárhæð 245 milljónir. Eigið fé K2B nemur því rúmlega 3,5 milljörðum króna.

Félagið er meðal annars í hópi stærstu hluthafa í tryggingafélaginu VÍS og Kviku banka. Svanhildur Nanna er stjórnarformaður VÍS en eiginmaður hennar, Guðmundur Örn Þórðarson, er hins vegar varaformaður stjórnar Kviku. Þau hjónin voru á sínum tíma aðaleigendur Skeljungs en seldu olíufélagið í árslok 2013 með milljarða hagnaði. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×