Innlent

Fékk lágmarksrefsingu fyrir kókaínsmygl í Argentínu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslenskur karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Argentínu fyrir kókaínsmygl.

Maðurinn, sem er tuttugu og tveggja ára, var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Buenos Aires í Argentínu tíunda október á síðasta ári. Þá var hann með fjögur og hálft kíló af kókaíni í fórum sínum.

Dæmt var í málinu í byrjun þessa mánaðar. Dómurinn er sem fyrr segir fjögur og hálft ár, en það er lágmarksrefsing fyrir brot af þessu tagi. Þetta var fyrsta brot mannsins og samkvæmt heimildum fréttastofu er búist við að hann þurfi ekki að afplána nema hluta dómsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Innanríkisráðuneytinu er ekki samningur á milli Íslands og Argentínu um afplánunarskipti.

Eftir handtökuna í október var maðurinn færður í varðhald í almennt fangelsi, þar sem hann deildi litlum klefa með fjölda manns. Með aðstoð ræðismanns Íslands í Argentínu var hann skömmu síðar færður í skaplegra fangelsi sem er fyrst og fremst ætlað útlendingum. Þar eru aðstæður aðrar og mun betri. 

Óvíst er hvort hann kemur til með að dvelja þar áfram eða hvort hann verði færður nú þegar dæmt hefur verið í málinu.

Maðurinn fór frá Íslandi í ágúst síðastliðnum eftir að hafa tilkynnt fjölskyldu sinni að hann væri kominn með vinnu í Danmörku. Hann var á leið frá Argentínu til Alicante á Spáni þegar hann var stoppaður af lögreglu á flugvellinum.

Fréttina í heild sinni má sjá eftir rúmar þrettán mínútur í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir

Íslendingur handtekinn með kókaín í Argentínu

Íslenskur karlmaður var handtekinn á flugvellinum í Buenos Aires í Argentínu á fimmtudaginn var. Samkvæmt heimildum Vísis var maðurinn með fjögur og hálft kíló af kókaíni á sér. Maðurinn sem er um tvítugt var úrskurðaður í varðhald.

Argentínufanganum komið í skaplegra fangelsi

Íslendingurinn sem situr inni í Buenos Aires fór frá Íslandi í ágúst og sagði fjölskyldunni að hann væri kominn með vinnu í Danmörku. Við handtökuna var hann á leið til Spánar. Getur nú fengið peninga senda frá Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×