Erlent

Fékk 47 gígabæt af tölvupóstum frá Twitter

Samúel Karl Ólason skrifar
Edward Snowden.
Edward Snowden. Vísir/EPA
Við höfum flest öll gleymt því að slökkva á tölvupóstum frá samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter. Nokkrum dögum eftir að við komum okkur fyrir sjáum við að pósthólf okkar eru að fyllast af tilkynningum að hinir og þessir hafi líkað við myndir og samþykkt vinabeiðnir.

Edward Snowden gleymdi þessu hins vegar þegar hann gekk til liðs við Twitter á þriðjudaginn. Í gærkvöldi hafði hann fengið gífurlegan fjölda tölvupósta frá Twitter um að aðilar hafi endurtíst tístum hans og þess háttar.

Alls voru þessir tölvupóstar 47 gígabæt að stærð á einungis þremur dögum.

120 þúsund manns endurtístu fyrsta tísti Snowden og 110 þúsund líkuðu við það. Tæplega 1,25 milljón manna fylgjast með Snowden á Twitter.

Edward Snowden varð heimsþekktur eftir að hann lak trúnaðarskjölum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna og kom upp um njósnir þeirra á eigin borgurum. Hann flúði svo til Rússlands til að sleppa við handtöku og lögsókn í Bandaríkjunum.

Þó fjölmargir fylgist með honum á Twitter, fylgist hann sjálfur þó einungis með einum reikningi og það er reikningur NSA. Snowden vann þar á árum áður og stal af þeim gögnunum sem hann svo lak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×