Viðskipti innlent

Fallið frá kaupréttarsamningum stjórnenda hjá Eimskip

Lillý Valgerður Pétusdóttir skrifar
Stórum hluthöfum í Eimskipi hefur verið tilkynnt að fallið verði frá kaupréttarsamningum sem gerðir voru við helstu stjórnendur fyrirtækisins. Tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins tóku ekki þátt í hlutabréfaútboði félagsins meðal annars vegna samninganna.

Fyrri hluta hlutafjárútboðs Eimskips lauk í dag. Aðeins fagfjárfestar máttu taka þátt en í boði var fimmtungshlutur í félaginu. Tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins, Gildi og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, tóku ekki þátt í útboðinu meðal annars vegna óánægju með kaupréttarsamninga sem gerðir voru við sex stjórnendur fyrirtækisins í sumar.

Samningarnir fólu í sér að stjórnendurnir eignuðust hluti í félaginu á mun lægra verði en fjárfestum stóð til boða. Sem þýðir að strax við skráningu félagsins, sem fyrirhuguð er í nóvember, myndu stjórnendurnir hagnast um hundruð milljóna króna.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna sem er þriðji stóri lífeyrissjóðurinn tók heldur ekki þátt í útboðinu. Ástæðan er sú að sjóðurinn keypti í sumar um 14% hlut í félaginu. Þetta var gert þrátt fyrir að sjóðurinn vissi af kaupréttarsamningunum. Kaupréttarsamningarnir voru upphaflega 2,8% en eftir að sjóðurinn keypti hlutféið þá voru þeir auknir í allt að 5%.

Lífeyrissjóðurinn sendi frá sér fréttatilkynningu vegna umræðunnar í dag þar sem sagt var að stjórn sjóðsins myndi beita áhrifum sínum til að hófs verði gætt varðandi kjör stjórnenda Eimskips þannig að þau verði í góðu samræmi við íslenskan veruleika. Helgi Magnússon stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að síðdegis hafi stjórn sjóðsins svo verið tjáð að fallið hefði verið frá kaupréttarsamningunum.

„Við fögnum því vegna þess að það er alveg ljóst að það reis óánægjualda út af þessu og það er mjög vont fyrir félag, fyrir fyrirtæki á markaði, að það sé ekki sátt um það, að það sé ófriður um það og það er bara mjög mikilvægt að það ríki sátt og að það verði góður friður um fyrirtækið," segir Helgi.

Ekki hefur náðst í stjórnendur Eimskips í dag vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×