Enski boltinn

Falcao: Manchester United er besta liðið á Englandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Falcao segist ánægður með vistaskiptin.
Falcao segist ánægður með vistaskiptin. Vísir/Getty
„Ég er mjög ánægður að vera kominn til þessa stóra félags. Ég hef beðið lengi eftir þessu augnabliki,“ segir kólumbíski framherjinn Radamel Falcao, nýjasti liðsmaður Manchester United.

Falcao kemur til United á eins árs lánssamningi frá franska liðinu Monaco, þar sem hann lék í rúmt ár. United staðfesti komu Falcao rétt eftir miðnætti í nótt. Kólumbíumaðurinn sagði biðina í gær hafa verið erfiða.

„Þetta var mjög langur og erfiður dagur. Við biðum lengi, en ég missti aldrei trúna. Mig langar að þakka Guði fyrir tækifærið. Ég er mjög ánægður,“ sagði Falcao sem hlakkar til að vinna með Louis van Gaal, knattspyrnustjóra United.

„Já, ég er mjög spenntur fyrir samstarfinu. Van Gaal er mjög góður þjálfari sem býr yfir mikilli reynslu. Ég mun leggja mig allan fram fyrir félagið, van Gaal og stuðningsmennina.

„Það er draumur að spila í ensku úrvalsdeildinni. Mig hefur alltaf langað að spila hér, því deildin er mjög sterk með mörgum góðum liðum og Manchester United er besta liðið á Englandi. Þetta er fullkomið fyrir mig,“ sagði markahrókurinn.

Talið er að lánssamningurinn muni kosta United um sex milljónir punda, en félagið er svo með forkaupsrétt á Falcao eftir að tímabilinu lýkur. Kólumbíumaðurinn mun spila í treyju númer níu hjá United.

Falcao gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir nýja félagið þegar Manchester United tekur á móti QPR sunnudaginn 14. september.

Falcao og Ryan Giggs, aðstoðarþjálfari Manchester United.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Falcao á Old Trafford

Flest virðist benda til þess að kólumbíski framherjinn Radamel Falcao sé á leið til Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×