Innlent

Erfitt að umbuna hjá lögreglu nema með stöðuhækkunum

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglumenn stóðu í harðri kjarabaráttu á árinu. Það reynist erfitt að umbuna þeim með hærri launum án þess að veita þeim stöðuhækkun. Sveigjanleika skortir að mati lögreglustjóra.
Lögreglumenn stóðu í harðri kjarabaráttu á árinu. Það reynist erfitt að umbuna þeim með hærri launum án þess að veita þeim stöðuhækkun. Sveigjanleika skortir að mati lögreglustjóra. Fréttablaðið/Pjetur
Tæplega 41 prósent lögreglumanna á landinu gegnir yfirmannsstöðu sé tekið meðaltal starfsmanna hjá öllum níu lögregluumdæmum landsins, auk ríkislögreglustjóra.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Hlutfall óbreyttra lögreglumanna fer hæst í 69 prósent hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra og tæp 68 prósent hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Lægst er hlutfall óbreyttra hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, 40 prósent, og svo 31 prósent hjá ríkislögreglustjóra.

Sé bara horft til lögregluembættanna níu er hlutfall óbreyttra lögreglumanna 63,5 prósent á móti 36,5 prósentum sem gegna yfirmannsstöðu.

Um áramótin síðustu var lögregluumdæmum fækkað og þau sameinuð til hagræðingar. Það er meðal annars ástæða mikils fjölda yfirmanna.

„Auðvitað er markmiðið að fjölga þeim sem eru að sinna verkefnunum úti í umdæminu en ekki stjórnendum,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ekki hægt að gera það í einu vetfangi því það má ekki taka stöður af fólki sem það er komið með. Í mínum huga þarf að fletja út píramídann til að boðleiðirnar séu ekki of langar.“

Tölurnar eru fengnar frá embætti ríkislögreglustjóra. Þær sýna sundurliðaðan fjölda lögreglumanna eftir stöðum þeirra. Sé tekið mið af tölunum er um fimm yfirmannsstöður að ræða innan lögreglunnar, fyrir utan lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra. Þær eru: Yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn, aðalvarðstjóri, lögreglufulltrúi og varðstjóri.

Aðeins rannsóknarlögreglumenn og lögreglumenn hafa ekki mannaforráð en rannsóknarlögreglumenn eru þó með hærri tekjur en almennir lögreglumenn.

Sigríður segir að lögreglufulltrúar hafi ekki alltaf mannaforráð heldur fari þeir í sumum tilfellum með forráð ákveðins málaflokks eða verkefnis.

„Í núverandi launaumhverfi lögreglunnar er erfitt að umbuna lögreglumönnum fyrir vel unnin störf nema með stöðuhækkunum. Aukinn sveigjanleiki, til dæmis með meira fjármagni inn í stofnanasamninga, getur haft áhrif á hlutfall stjórnenda,“ segir Sigríður.

Hún segir það markmið sitt að fletja skipulag lögreglunnar út. „Það þarf ekki sex eða sjö manna keðju sem skilaboðin þurfa svo að berast upp og niður um.“

Á landinu starfa 23 yfirlögregluþjónar sem allir eru karlar. Hlutfall kvenna í yfirmannsstöðum er hæst hjá lögreglufulltrúum eða 19,1 prósent. Fjórar konur eru lögreglustjórar á landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×