Viðskipti innlent

Enn óvissa um gengislán: „Þessir dómar svara ekki öllum spurningum“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Upplýsingafulltrúi Lýsingar segir lögfræðinga félagsins vera að fara yfir dóma Hæstaréttar frá því í gær.
Upplýsingafulltrúi Lýsingar segir lögfræðinga félagsins vera að fara yfir dóma Hæstaréttar frá því í gær.
„Þessir dómar svara ekki öllum spurningum,“ segir Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Lýsingar, um dóma sem féllu í Hæstarétti í gær. Lýsing tapaði báðum málunum og þarf að endurgreiða tveimur viðskiptavinum sínum ofgreiðslur af lánum.



Lögfræðingar Lýsingar vinna nú að því að yfirfara dómana og meta hvaða áhrif þeir hafa á stöðu annarra mála. Hundruð mál bíða afgreiðslu í dómskerfinu vegna gengistryggðra lána en óvissa virðist ríkja um fordæmisgildi dómanna í gær.



Sjá einnig: „Þetta hefur gríðarleg áhrif“



„Nú er verið að fara yfir þessa dóma og lesa þá í samræmi við aðra í þeim tilgangi að skoða hvort og að hvaða marki þeir geta haft áhrif á aðra samninga,“ segir Þór.



Í gær sagði Jóhannes Stefán Ólafsson, lögmaður sem flutti annað málið, allar varnir Lýsingar vera búnar. „Þetta hefur gríðarleg áhrif,“ sagði hann. Lýsing vann þó hluta málsins, þess sem snéri að íslenskum hluta láns umbjóðanda Jóhanns.



Þór segir að ekki megi lesa of mikið í dóminn of fljótt.



„Málin eru ekki öll vaxin eins. Þegar dómar byggjast á heildarmati á aðstæðum viðkomandi, þá, eins og dæmin sanna, geta komið mismunandi niðurstöður jafnvel þótt í grunninn liggi sambærilegur löggjörningur,“ segir hann.



„Þess vegna er mjög varhugavert að ætla sér að lesa eitthvert mjög víðtækt og almennt gildi úr einstaka dómsmáli,“ segir Þór.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×