Innlent

Enginn gisti í bílageymslunni

Bjarki Ármannsson skrifar
Sjúkrarými sem sett var upp í bílageymslu Landspítalans um helgina hefur verið tekið niður.
Sjúkrarými sem sett var upp í bílageymslu Landspítalans um helgina hefur verið tekið niður. Vísir/Una
Engir sjúklingar gistu sjúkrarými sem sett var upp í bílageymslu Landspítalans um helgina. Rúmum var komið fyrir í bílageymslunni, sem notuð hefur verið sem sjúkrarými í hópslysum og á að vera notað í eiturefnaslysum, vegna gríðarlegs álags sem var á spítalanum í síðustu viku.

Búnaðurinn sem komið var fyrir hefur verið tekinn niður og fluttur aftur inn á spítalann. Það er þó fljótgert að koma aftur upp rými í bílageymslunni ef þörf er á. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði þegar sjúkrarýmið var sett upp að um öryggisógn á spítalanum hefði verið að ræða. 

„Við vorum með 28 sjúklinga hér á gangi á miðvikudagskvöldið og 35 í rúmum sem komust ekki inn á yfirfullan spítala,“ sagði Páll í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudagskvöld. „Auðvitað er þetta ekki félegt, en þetta er tryggara en ef við værum að dreifa fólki á yfirfullar deildir um allan spítala.“

Sívaxandi álag hefur verið á spítalann um langt skeið, bæði vegna öldrunar þjóðarinnar, aukins straums ferðamanna og að sögn Páls ekki síst vegna þess að erfiðlega gengur að losa um sjúkrarými þar sem liggur fólk sem er búið að fá meðferð og þyrfti að komast annað.

Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum dró þó aðeins úr aðsókn á spítalann um helgina, sennilega að miklu leyti vegna fréttaflutnings af neyðarrýminu í bílageymslunni. Aðsóknin hefur þó aukist aftur í dag.


Tengdar fréttir

Segir forsætisráðherra vinna skemmdarverk

Kári Stefánsson segir það skemmdarverk af hálfu forsætisráðherra að leggja til breytingar á staðsetningu nýs Landspítala á þessari stundu. Undirskriftarsöfnun hans fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins er nú orðin sú stærsta í Íslandssögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×