Viðskipti innlent

Eiríkur kveður Séð og heyrt: „Bjargaði þessu tímariti frá dauða“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hreinn stillti ritstjóranum upp við vegg og Eiríkur lét ekki bjóða sér það.
Hreinn stillti ritstjóranum upp við vegg og Eiríkur lét ekki bjóða sér það.
Eiríkur Jónsson lætur af störfum sem ritstjóri Séð og heyrt þann 31. maí næstkomandi. Vísir greindi frá brotthvarfi Eiríks um helgina en hann hefur verið í ritstjórastólnum undanfarin tæp tvö ár.

Eiríkur segir að Hreinn Loftsson, yfirmaður hans og eigandi Birtings, hafi sett honum stólinn fyrir dyrnar. Annaðhvort hætti hann með vefsíðu sína Eiríkurjónsson.is og einbeitti sér alfarið að Séð og heyrt eða hætti hjá tímaritinu.

„Það er auðvitað enginn sáttur við að vera stillt upp við vegg,“ sagði Eiríkur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hreinn hafi sett honum fyrrnefnda úrslitakosti, að hvíla eða svæfa annan fjölmiðil. Eiríkur hafi ákveðið að standa með sjálfum sér.

„Eirikurjonsson.is sem er vel þekktur,“ sagði Eiríkur um vefsíðu sína. Hann segir Séð og heyrt alltaf hafa haft forgang þegar kom að því að greina frá fréttum. Hann hafi passað sig vel á því. Hreinn hafi bara viljað hafa Eirík 100 prósent hjá tímaritinu.

En varstu þá ekki 100 prósent hjá Séð og heyrt?

„Jú jú, ég var alveg 100 prósent í því. Bjargaði þessu tímariti frá dauða meira að segja.“

Hann er afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að blaðið hafi skánað undir hans stjórn, sala hafi aukist og lestur sömuleiðis. 

„Það er mikið verk að halda þessu öllu gangandi með lágmarksmannskap.“

Eiríkur segir ýmislegt í pípunum en vill þó ekki fara nánar út í það. Gott sé á milli þeirra Hreins sem fyrr.

„Maðurinn á þetta fyrirtæki og ræður hvað hann gerir. Hann gerir bara samning við þig sem er hægt að segja upp. No hard feelings.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×