Innlent

Einar segir Björn Val hafa staðið í vegi fyrir fimm flokka ríkisstjórn: „Hans orð hljóta að hafa einhverja vigt“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Einar segir í samtali við fréttastofu að þetta sé hans mat en hann tekur það fram að Björn hljóti að hafa einhver völd í Vinstri grænum.
Einar segir í samtali við fréttastofu að þetta sé hans mat en hann tekur það fram að Björn hljóti að hafa einhver völd í Vinstri grænum. Vísir /Anton
Einar Brynjólfsson þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi gagnrýndi Björn Val Gíslason harðlega á samfélagsmiðlum í gær og gaf í skyn að Björn bæri ábyrgð á því að Vinstri grænum tókst ekki að mynda fimm flokka ríkisstjórn.

Einar nefnir meðal annars að ástæðan fyrir því að upp úr viðræðunum slitnaði sé vegna þess að Björn sé mikill stuðningsmaður útgerðarinnar enda sé hann sjálfur fyrrverandi skipstjóri. Hann gagnrýnir sömuleiðis orð Björns Vals sem hann lét falla í Vikulokunum á RÚV 10. desember þar sem Björn sýndi fram á vilja að ræða við Sjálfstæðisflokkinn þegar viðkvæmar viðræður voru í gangi milli flokkanna fimm.  Þetta kemur fram hjá DV.

Hálfgert bríarí

Vísir hafði samband við Einar sem sagði að viðbrögð hans hefðu verið við tilvitnun sem gerð var í Björn Val Gíslason þar sem sá síðarnefndi er sagður hafa talað fyrir málamiðlunum í ríkistjórnarviðræðum. Einar segist gruna að Björn Valur hafi ekki verði tilbúinn að gera málamiðlanir varðandi sjávarútvegsmál og því hafi viðræðurnar ekki náð lengra.

„Þetta var náttúrulega bara í hálfgerðu bríaríi. Það var á einhverjum þræðinum á Facebook, einum af ansi mörgum, þá voru höfð eftir Birni Vali Gíslasyni þau orð að menn þyrftu að gera málamiðlanir annars væru þeir að eftirláta öðrum að stjórna. Í tilefni af þessu skrifaði ég eitthvað á þann veg að mér þætti skemmtilegt að þarna væri verið að vitna í Björn Val Gíslason, manninn sem hefði sett sand í gírkassann í þessum viðræðum,“ segir Einar.

Einar segir í samtali við fréttastofu að þetta sé hans mat en hann tekur það fram að Björn hljóti að hafa einhver völd í Vinstri grænum.

„Þó hann sé ekki á þingi, þá er hann varaformaður og hans orð hljóta að hafa einhverja vigt,“

Einar segir að hann hafi fengið nokkur viðbrögð og að fólk sé að senda honum skilaboð. Viðbrögðin séu sterk og jákvæð enn sem komið er en hann væntir þess að neikvæð viðbrögð séu handan við hornið.

Björn Valur segist ekki hafa haft áhrif á viðræðurnar á milli flokkanna fimm.visir/gva
Kemur af fjöllum

Vísir hafði samband við Björn Val Gíslason en hann sagðist hreinlega koma af fjöllum hvað þessi ummæli varðar.

„Ég tók ekki þátt í þessum viðræðum og hafði engin áhrif á þær,“segir Björn.

Hann segir það reyndar vera rétt hjá Einari að vissulega hafi orð hans vigt innan flokksins þar sem hann sé varaformaður en hann hafi ekki haft nein áhrif á þessar viðræður. Hvað varðar ummæli Einars um hátterni Björns í Vikulokunum kveðst hann að nokkru leyti geta tekið undir það að orð sín um viðræður við Sjálfstæðisflokkinn hafi kannski ekki hjálpað til. 

Björn segir einnig að ekki sé hægt að vitna í fyrrverandi starf hans sem skipstjóri og ýja að því að það sé ástæðan fyrir því að málamiðlanir voru ekki gerðar í sjávarútvegsmálum. 

„Hann hefur greinilega þá skoðun að fólk sé eign atvinnurekenda. Það er að segja vinnurðu á sjó þá sértu handbendi útgerðarmanna og vinnurðu í verslun sértu handbendi verslunar og þjónustu. Sjómenn eru rétt eins og annað fólk, hafa stjórnmálaskoðanir og skoðanir á lífinu og tilverunni. Það hefur aldrei neinn átt mig. Það á mig enginn nema ég sjálfur,“ segir Björn og segist í raun standa á gati hvað allt þetta varðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×