Viðskipti innlent

Einar Örn býður sig fram í stjórn TM

Hörður Ægisson skrifar
Einar Örn Ólafsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Skeljungs
Einar Örn Ólafsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Skeljungs
Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hyggst bjóða sig fram í stjórn TM á aðalfundi félagsins þann 16. mars. Þetta staðfestir hann í samtali við Markaðinn.

Fjárfestingarfélagið Einir ehf., í eigu Einars Arnar, er í hópi tíu stærstu hluthafa tryggingafélagsins. Á meðal annarra stórra hluthafa sem standa að baki framboði hans má nefna eignarhaldsfélagið Helgafell ehf., í eigu Bjargar Feng­er, eiginkonu Jóns Sigurðssonar stjórnarmanns í N1, og fjölskyldu hennar.

Einir og Helgafell eiga samanlagt um níu prósenta hlut í TM. Félögin voru ekki hluthafar í tryggingafélaginu þegar síðasti aðalfundur þess var haldinn 17. mars í fyrra. Einir á 2,76 prósenta hlut í fyrirtækinu og er því tíundi stærsti hluthafinn. Helgafell heldur á 6,34 prósentum, er sjötti stærsti eigandinn, en Jón Sigurðsson stýrir fjárfestingum félagsins.

Einar Örn byrjaði að kaupa bréf í TM í byrjun síðasta haust. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi TM með 9,6 prósenta hlut. Gildi lífeyrissjóður og hlutabréfasjóður í rekstri sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis koma þar á eftir með 8,7 og 8,1 prósent. Birta lífeyrissjóður á 7,6 prósent í fyrirtækinu sem er skráð á Aðallista Kauphallar Íslands. Einir og Helgafell eru því stærstu einkafjárfestarnir í hluthafahópi TM.

Stjórn tryggingafélagsins er í dag skipuð fimm aðalmönnum og er Örvar Kærne­sted, sjálfstætt starfandi fjárfestir, stjórnarformaður þess. TM skilaði 2,6 milljarða króna hagnaði í fyrra samanborið við 2,8 milljarða árið 2015.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×