Viðskipti innlent

Eimskip kaupir Baldur á Breiðafirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sæferðir reka Baldur á Breiðarfirði.
Sæferðir reka Baldur á Breiðarfirði.
Eimskip hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé fyrirtækisins Sæferða ehf. í Stykkishólmi. Sæferðir reka skipin Baldur og Særúnu á Breiðafirði. Með kaupum á Sæferðum er Eimskip að stíga ákveðin skref í að styrkja starfsemi sína í sjótengdri ferðaþjónustu, en félagið hefur á undanförnum árum rekið ferjuna Herjólf á tímabundnum samningi fyrir Vegagerðina sem þjónar samgöngum og ferðaþjónustu milli lands og Vestmannaeyja.

Á árinu 2014 fjárfestu Sæferðir í nýrri og stærri ferju sem tekur fleiri farþega og bíla og eykur möguleika fyrirtækisins til frekari vaxtar. Heildarvelta fyrirtækisins á árinu 2014 nam 560 milljónum króna sem samsvarar 3,6 milljónum evra. Kaupin á fyrirtækinu eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og eru gerð með þeim fyrirvara að þau verði samþykkt.

„Ég er mjög sáttur við að hafa náð samningum við eigendur Sæferða um kaup á fyrirtækinu, enda um mjög spennandi fyrirtæki að ræða með mikla framtíðarmöguleika er snúa að ferðaþjónustu og samgöngum á vestanverðu landinu. Eimskip mun leggja mikinn metnað í að halda áfram á þeirri braut að efla bæði þjónustu við íbúa svæðisins og ferðaþjónustu í góðu samráði við heimamenn og halda áfram að veita viðskiptavinum félagsins framúrskarandi þjónustu,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×