Erlent

Eiginkona árásarmannsins í London: „Ég er leið og í áfalli“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Khalid Masood.
Khalid Masood. Vísir/AFP
Eiginkona Khalid Masood, mannsins sem gerði hryðjuverkaárás við þinghúsið í London í liðinni viku, segir að hún sé leið og í áfalli vegna árásarinnar. Þá fordæmir hún gjörðir eiginmanns síns en konan, sem heitir Rohey Hydara, sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að móðir Masood, Janet Ajao, tjáði sig um árásina.

Í yfirlýsingu Hydara, sem hafði búið með Masood frá árinu 2010, segir hún:

„Ég er leið og í áfalli yfir því sem Khalid gerði. Ég fordæmi gjörðir hans að öllu leyti, samhryggist fjölskyldum þeirra sem létust og óska þeim sem slösuðust skjóts bata. Þá óska ég eftir því að einklíf fjölskyldunnar verði virt, ekki síst barnanna, á þessum erfiðu tímum.“

Lögreglan í London sagði í gær að Masood hefði haft greinilega áhuga á öfgahópum tengdum íslam og að aðferðir hans væru í anda þess sem leiðtogar hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkið hefðu boðað.

Aftur á móti eru engar sannanir fyrir því að Masood hafi rætt undirbúning árásarinnar við nokkurn mann en lögreglan hefur biðlað til þeirra sem gætu hafa rætt við hann daginn sem árásin var gerð að gefa sig fram.

„Ef þú heyrðir frá honum þann 22. mars vinsamlegast gefðu þig fram. Upplýsingarnar sem þú býrð yfir gætu reynst mikilvægar til þess að komast að því hvernig honum leið.“

Masood myrti fjóra í árásinni og slasaði tugi manna. Sjálfur var hann skotinn til bana af lögreglumanni í garði breska þinghússins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×