Fótbolti

Di Maria ánægður að vera að ganga til liðs við Paris Saint-Germain

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Di Maria hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Di Maria hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester United. Vísir/Getty
Argentínski kantmaðurinn Angel Di Maria var sáttur þegar hann var spurður út í félagsskipti sín frá Manchester United til Paris Saint-Germain en talið er að gengið verði frá kaupunum á morgun. Di Maria gekkst í dag undir læknisskoðun í höfuðborg Katars, Doha.

Di Maria sem er 27 árs gamall gekk til liðs við Manchester United frá Real Madrid stuttu fyrir lok félagsskiptagluggans fyrir tæplega sextíu milljónir punda fyrir hann. Varð hann fimmti dýrasti leikmaður allra tíma og dýrasti leikmaðurinn sem hefur gengið til liðs við enskt úrvalsdeildarfélag.

Di María byrjaði ferilinn vel hjá Manchester United en hann var valinn leikmaður mánaðarins í september hjá félaginu. Eftir það virtist leiðin aðeins liggja niður á við en eftir að hann meiddist í leik gegn Hull í nóvember náði hann sér aldrei á strik á ný.

Voru enskir og franskir miðlar duglegir að orða hann við PSG á meðan tímabilinu stóð en hann ýtti undir orðróma að hann væri á förum frá félaginu þegar hann mætti ekki í æfingarferð félagsins um Bandaríkin á dögunum. Leiddi það til þess að Louis Van Gaal, knattspyrnustjóri félagsins, viðurkenndi að hann hefði ekki hugmynd hvar Di Maria væri staðsettur.

„Það er mikill léttir að sjá fyrir endann á þessu. Ég er mjög ánægður að ég sé við það að ganga til liðs við jafn mikilvægt félag og Paris Saint-Germain,“ sagði Di Maria, í viðtali við beIN Sports en talið er að franska félagið greiði 44 milljónir punda fyrir argentínska kantmanninn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×