Viðskipti innlent

Deilt um gagnsæi forvalsins

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, fór ásamt öðrum starfsmönnum félagsins yfir forvalsferlið á blaðamannafundi í gær.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, fór ásamt öðrum starfsmönnum félagsins yfir forvalsferlið á blaðamannafundi í gær. Vísir/Pjetur
Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia, segir félagið ekki hafa farið gegn ákvörðun fyrri stjórnar Isavia um að forval vegna verslunar- og veitingarýmis í Leifsstöð ætti að fara fram í opnu og gagnsæju ferli. Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa gagnrýnt framkvæmd forvalsins harðlega.

„Það er okkar niðurstaða að þetta sé eins opið og gagnsætt eins og frekast er kostur í forvali af þessu tagi,“ segir Ingimundur. Hann segir stjórn Isavia, sem var kosin í apríl síðastliðnum, hafa rætt verklagið ítarlega á þremur fundum. 

„Okkar gagnrýni beinist fyrst og fremst að því að ferlið var ekki opið og gagnsætt eins og lög um opinber innkaup og útboðslög bjóða,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ og heldur áfram: 

„Þar af leiðandi gagnrýna fyrirtæki sem fengu ekki aðstöðu í Leifsstöð það að þau hafi ekki fengið upplýsingar um hvar í röðinni þau lentu eða hvaða atriði í skilmálunum felldu þau.“





Andrés Magnússon
Ingimundur segir það standa til að gefa þeim fyrirtækjum sem óski eftir frekari upplýsingum um niðurstöðu forvalsins tækifæri á að ræða við fulltrúa þess verkefnahóps Isavia sem sá um það.„Eftir á að hyggja viðurkenni ég þó, í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um forvalið, og varðar skipan verkefnahópsins, að af þeirri fimm manna nefnd eru fjórir starfsmenn Isavia og einn utanaðkomandi aðili. Það hefði hugsanlega verið betra að hafa annan utanaðkomandi aðila.“

Andrés segir SVÞ bíða svars Isavia við bréfi sem samtökin sendu félaginu fyrir rúmum mánuði þar sem óskað er eftir frekari upplýsingum um hvernig umsóknir þeirra fyrirtækja sem sóttu um aðstöðu í Leifsstöð voru metnar.

„Að okkar mati hefði verið snyrtilegra og heiðarlegra af hálfu Isavia að lýsa því strax yfir að lög um opinber innkaup giltu um þetta ferli allt saman. Þá hefði enginn getað sagt neitt og allar upplýsingar verið á borðinu,“ segir Andrés.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×