Viðskipti innlent

Deilan um Salek gæti endað fyrir héraðsdómi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Loftmynd af Akranesi.
Loftmynd af Akranesi. vísir/GVA
Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) skrifar ekki undir kjarasamning við sveitarfélögin þar sem svonefnt SALEK-samkomulag er með sem fylgiskjal, segir Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. Félagsdómur vísaði fyrir helgi frá máli verkalýðsfélagsins á hendur Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem þess var krafist að SALEK-samkomulagið yrði ekki hluti af kjarasamningi félaganna.

Boðað hefur verið til samningafundar í kjaradeilu VLFA og sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara eftir hádegi í dag, en þar segir Vilhjálmur koma í ljós hvort sveitarfélögin standi enn við þá kröfu sína að nýjum kjarasamningi fylgi viðauki um SALEK-samkomulagið. Fari svo sé einboðið að vísa deilunni til almennra dómstóla.

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA
„Grundvallaratriðið er að ef við myndum samþykkja þetta rammasamkomulag með kjarasamningnum hjá okkur, þá er það orðið ígildi kjarasamnings,“ segir hann. SALEK-samkomulagið geri svo ráð fyrir að launabreytingar í öðrum kjarasamningum, sem félagið eigi eftir að gera, verði með þeim hætti sem kveðið er á um í samkomulaginu. „Og við getum ekkert fallist á það að við ákveðum í þessum samningi hvernig við göngum frá öðrum kjarasamningum sem við eigum eftir að gera. Það bara stenst enga skoðun.“

Vilhjálmur segir að fyrir Félagsdómi hafi Samband íslenskra sveitarfélaga breytt „algjörlega um kúrs “og sagt SALEK ekki vera skuldbindandi, þótt félagið hafi lagt fyrir dóminn gögn um annað. Hvort sú stefnubreyting standi komi í ljós á fundinum í dag. Sé svo standi ekkert í vegi fyrir undirritun samninga. „Nei nei, þetta er orðið þýðingarlaust plagg af þeirra hálfu, bara einhver markmið og annað slíkt. Þessi stefnubreyting þeirra gerir að verkum að það var gengið að okkar kröfum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×