Viðskipti innlent

DB Schenker yfirtekur flutningsmiðlun Global Cargo á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri DB Schenker á Íslandi.
Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri DB Schenker á Íslandi. Aðsend mynd
Fyrirtækin DB Schenker og Global Cargo hafa gert með sér samkomulag um að DB Schenker yfirtaki flutningsmiðlunarhluta Gobal Cargo. Í tilkynningu DB Schenker segir að gengið hafi verið frá samkomulaginu um miðjan júní, en það hafi nú verið staðfest af stjórnum beggja fyrirtækja.

Eftir yfirtökuna mun Global Cargo einbeita sér að rekstri tollvörugeymslu, vöruhótels, hafnarþjónustu og innanbæjardreifingu frá flutningsmiðstöð félagsins.

„DB Schenker mun nota vöruhús og dreifingarþjónustu Global Cargo nú sem fyrr en þjónusta við viðskiptavini beggja fyrirtækja verður aukin enn frekar. Með yfirtökunni verður til sterkari eining sem eykur samkeppni í flutningsmiðlun á Íslandi.“

Þá segir að DB Schenker sé annað tveggja stærstu flutningsmiðlunarfyrirtækja í heimi og sé hluti af Deutsche Bahn, þýska járnbrautakerfinu. Hjá fyrirtækinu starfa um 300.000 manns, þar af um 95.000 í flutningsmiðlunarhluta fyrirtækisins.

„Fyrirtækið er með starfsemi í fimm heimsálfum, í rúmlega 130 löndum og með meira en 2.000 starfsstöðvar. DB Schenker hefur starfað á íslenskum markaði til fjölda ára með umboðsmönnum en opnaði undir eigin merkjum um mitt ár 2011 og hefur vaxið ört síðan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×