Erlent

Dæmdur í lifstíðarfangelsi: Skildi son sinn eftir í bíl í sjö tíma

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Justin Harris.
Justin Harris. Vísir/EPA
Bandaríkjamaðurinn Justin Harris var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa skilið tveggja ára gamlan son sinn eftir í heitum bíl þar sem hann lést. BBC greinir frá.

Atvikið átti sér stað júní árið 2014 í Atlanta í Georgíu og hélt Harris því fram að hann hefði gleymt barninu í bílnum og því hefði verið um slys að ræða.

Áður hefur komið fram að Harris hafi flett því upp á netinu hve heitur bíll þyrfti að verða svo barn gæti dáið og einnig að hann hafi skoðað heimasíður um barnlausan lífstíl. Fimm dögum áður en sonur  hans lést skoðaði Justin tvö myndbönd þar sem dýralæknir sýnir fram á hætturnar sem fylgja því að skilja einhvern eftir í bíl á heitum degi.

Vitni sagði frá því að Harris hefði setið inná  skrifstofu sinni og sent stúlkum undir lögaldri klámfengin skilaboð í þær sjö klukkustundir sem drengurinn var í bílnum.

Dómari í málinu sagði ljóst að um hræðilegan glæp væri að ræða þar sem Harris hefði vísvitandi skilið barnið eftir í bílnum.

Saksóknari færði fyrir því rök að Harris hefði skipulagt dauða sonar síns til þess að geta yfirgefið fjölskyldu sína og lifa einhleypu lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×