Erlent

Skildi son sinn eftir í bíl í sjö tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Maður sem skildi 22 mánaða gamlan son sinn eftir í bíl á sólríkum degi, þar sem hann lést, mætti fyrir dómara í Bandaríkjunum í dag. Justin Ross Harris verður ákærður fyrir morð og grimmd gegn barni, en sonur hans lést eftir að hafa verið skilinn eftir í bíl í sjö tíma á meðan Justin var í vinnunni.

Hitinn náði mest rúmum 33 gráðum á selsíus yfir daginn.

Á meðan sonur hans kvaldist í bílnum var Justin í tölvusamskiptum við sex konur og meðal annars sendi hann þeim myndir af getnaðarlim sínum. Ein þeirra var sautján ára gömul.

CNN segir frá því að Justin hafi yfirleitt farið með son sinn í daggæslu sem var í vinnu hans, en ekki þennan morgun. Þá á hann að hafa farið út í bíl með ljósaperur um daginn. Sjálfur segist hann hafa gleymt því að sonur hans væri í bílnum.

Á leið heim úr vinnu keyrði hann inn á bílastæði og fór úr bílnum og bað um aðstoð. „Hvað hef ég gert?“ sagði hann. Vitni sögðu hann einnig hafa sagt: „Ég trúi ekki að þetta hafi gerst. Ég verð ásakaður um glæp.“

Eiginkona hans viðurkenndi fyrir lögreglu að þau hefðu flett upp á netinu hve heitur bíll þyrfti að verða svo barn gæti dáið. Þá skoðaði Justin heimasíðu undir nafninu „Barnlaus“ og las þar fjórar greinar.

Fimm dögum áður en sonur hans lést, skoðaði Justin tvö myndbönd þar sem dýralæknir sýnir fram á hætturnar sem fylgja því að skilja einhvern í bíl á heitum degi.

Verjandi Justin sagði hann hafa flett þessu upp af ótta við að slíkt gæti komið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×