Innlent

Dæmdur fyrir að dreifa myndefni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maðurinn er einn fimm ungra manna sem voru sýknaðir af ákæru um að hafa í sameiningu nauðgað sextán ára stúlku í maí árið 2014.
Maðurinn er einn fimm ungra manna sem voru sýknaðir af ákæru um að hafa í sameiningu nauðgað sextán ára stúlku í maí árið 2014. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun ungan mann til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar og til að greiða stúlku 700 þúsund krónur í miskabætur. 

Maðurinn er einn fimm ungra manna sem voru sýknaðir af ákæru um að hafa í sameiningu nauðgað sextán ára stúlku í maí árið 2014. Maðurinn var í morgun sakfelldur fyrir að hafa dreift myndbandi sem sýndi verknaðinn.

Maðurinn hafði áður í Hæstarétti verið dæmdur til þrjátíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir upptöku myndbandsins en ekki dreifingu þess. Við sama tilefni voru hinir fjórir sýknaðir en Hæstiréttur ómerkti sýknudóm úr héraði yfir manninum er varðaði dreifingu myndbandsins og fól héraðsdómi að taka þann hluta ákærunnar aftur fyrir.

Ákærður fyrir upptöku og dreifingu

Maðurinn var upphaflega ákærður fyrir að hafa annars vegar myndað hluta af verknaðinum með upptökubúnaði og hins vegar að hafa skömmu síðar sýnt nemendum Fjölbrautaskólans í Breiðholti myndbandið í matsal skólans.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í nóvember árið 2015 að manninn bæri að sýkna af ákæruliðnum sem sneri að sýningu þar sem ósannað væri, gegn neitun hans, að hann hefði sýnt myndbandið í skólanum.

Ungi maðurinn hefur borið að síminn hafi verið tekinn af honum. Hann hafi aðeins sýnt meðákærðu myndbandið sem hafi sagt honum að eyða því. Það hafi hann gert.

Senda aftur heim í hérað

Málið vakti mikla athygli og átti upptakan þátt í því. Í september síðastliðnum ómerkti Hæstiréttur sýknudóm yfir manninum sem sneri að sýningu myndbandsins í matsal Fjölbrautarskólans í Breiðholti og því þurfti að taka ákæruliðinn upp að nýju. 

Ástæðan var meðal annars sú að lögregla gerði enga tilraun við rannsókn málsins til að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum Fjölbrautarskólans í Breiðholti til að staðfesta frásögn mannsins þess efnis að síminn hefði verið tekinn af honum.


Tengdar fréttir

Allir sýknaðir af hópnauðgun

Fimm piltar á aldrinum 18-21 árs hafa verið sýknaðir af ákæru um nauðgun á sextán ára stúlku í samkvæmi í Breiðholti í maí í fyrra. Einn var sakfelldur fyrir að taka atvikið upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×