Erlent

Cazeneuve tekur við af Valls sem forsætisráðherra

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, sækist eftir því að verða forsetaefni Sósíalistaflokksins í forsetakosningunum í vor.

Valls sagðist jafnframt segja af sér sem forsætisráðherra. Bernard Cazeneuve innanríkisráðherra ætlar að taka að sér það embætti.

Forval Sósíalistaflokksins verður í janúar næstkomandi. Francois Hollande forseti skýrði nýlega frá því að hann ætli ekki að taka þátt í forvalinu, og verði þar með ekki forsetaefni flokksins.

Verði Valls forsetaefni Sósíalista, sem flest bendir til að verði, mun hann mæta í forsetakosningunum hægri manninum Francois Fillon, sem er frambjóðandi Demókrataflokksins, og þjóðernispopúlistanum Marine le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar.

Skoðanakannanir hafa til þessa sýnt að frambjóðandi Sósíalista myndi eiga minnstu möguleikana á að komast í seinni umferð forsetakosninganna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×