Innlent

Byggingarfulltrúi gefur ekki mikið fyrir útskýringar Mannverks vegna niðurrifs Exeter-hússins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Húsið sem stóð við Tryggvagötu 12, og stundum hefur verið kallað Exeter-húsið, var byggt árið 1904.
Húsið sem stóð við Tryggvagötu 12, og stundum hefur verið kallað Exeter-húsið, var byggt árið 1904. Vísir/Anton Brink
„Heimildarnar voru alveg klárar, við erum í miklu sambandi við þessa menn og ég gef ekki mikið fyrir þær,“ segir Nikulás Úlfar Másson byggingarfulltrúi hjá Reykjavík aðspurður um þær útskýringar sem Mannverk ehf. hefur gefið vegna niðurrifs Exeter-hússins svokallaða.

Líkt og fjallað hefur verið um á Vísi undanfarna daga var hið svokallaða Exeter-húsið sem stóð við Tryggvagötu 12 rifið vegna framkvæmda á byggingareit við Tryggvagötu 10 til 14 sem Mannverk stendur fyrir. Komið hefur í ljós að Mannverk hafði ekki heimildir til þess að rífa húsið sem byggt var árið 1904.

„Skipulags- og byggingaryfirvöld í Reykjavík eru miður sín að svona geti gerst á tímum þar sem almennt er viðurkennt að svona hús hefur mikið gildi fyrir okkur og eigi að fá að standa,“ segir Nikulás.

Erfitt gæti reynst að endurbyggja húsið líkt og Mannverk hefur lofað

Mannverk ehf. gaf í morgun út yfirlýsingu þar sem segir að starfsmenn Mannverks hafi talið sig vera innan heimilda við framkvæmdina og að þeir hafi verið í góðri trú um að niðurrifið þess hafi bæði verið væri heimilt og nauðsynlegt við endurbyggingu hússins. Hefur fyrirtækið heitið því að endurbyggja húsið.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun segir hinsvegar að erfitt geti reynst að byggja húsið upp að nýju, ekki séu til teikningar af upphaflegri gerð þess.

Borgaryfirvöld hafa kært niðurrifið og fer lögreglan nú með rannsókn málsins. Hyggst Minjastofnun einnig kæra niðurrifið til lögreglu. Samkvæmt hegningarlögum getur niðurrifið varðað allt að þriggja ára fangelsi hjá þeim sem ber ábyrgð á því. 


Tengdar fréttir

Engar teikningar til af Exeter-húsinu

Starfsfólk fyrirtækisins Mannverks taldi sig vera innan heimilda þegar rúmlega hundrað ára hús við Tryggvagötu 12 var rifið í síðustu viku. Erfitt gæti reynst að endubyggja húsið en engar teikningar eru til af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×