Viðskipti innlent

Búllan opnar í Róm

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tommi á Búllunni opnar nýjan stað í Róm í vor.
Tommi á Búllunni opnar nýjan stað í Róm í vor. vísir
Stefnt er að því að opna nýtt útibú Hamborgarabúllu Tómasar í Róm í maí. Tómas Tómasson, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, segist hafa verið að líta í kringum sig í heilt ári eftir tækifæri í borginni.

„Við erum í samstarfi við Ítala þarna úti en við vildum ekki fara af stað fyrr en við værum búin að fá húsnæði. Núna erum við komin með húsnæði svo undirbúningur er bara í fullum gangi,“ segir Tommi.

Staðurinn verður nokkuð miðsvæðis í Róm.

„Hann stendur við mjög stóra og breiða götu sem kennd er við Júlíus Sesar. Þetta er svona innan við kílómeter frá Vatíkaninu og er í gömlu Róm, ekki alveg í elsta hluta borgarinnar, heldur rétt fyrir utan hann,“ segir Tommi.

Útibú Búllunnar erlendis eru nú orðin sex talsins, tvö í London og svo í Berlín, Kaupmannahöfn, Osló og Malmö. Um miðjan apríl opnar síðan nýr staður í Árhúsum í Danmörku og þá er stefnt að því að opna einn stað til viðbótar í Köben.

Þá segir Tommi að hann sé líka að líta í kringum sig í Berlín með það fyrir augum að opna annan stað til viðbótar, en hann var einmitt þar þegar Vísir náði tali af honum.

„Það hefur gengið mjög vel í Berlín og borgin er svo stór að hún myndi alveg bera annan stað.“

Þegar blaðamaður hefur orð á því að svo virðist sem það gangi glimrandi vel segir Tommi:

„Við skulum bara segja „so far, so good.“ Ef ég væri að kvarta væri ég verulega vanþakklátur.“


Tengdar fréttir

Hvar er besti borgarinn?

Þegar brestur á með helgi er klassískt og gott að tríta bæði munn og maga með góðum hamborgara. Fréttablaðið leitaði á náðir nokkurra álitsgjafa til þess að freista þess að varpa ljósi á hvar besta borgara landsins er að finna.

Búllan sterk í London

Er einn heitasti hamborgarastaðurinn og keppir nú um besta borgarann í bænum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×