Innlent

Brýnt að setja reglur um drónaflug

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Samgöngustofa telur afar brýnt að settar verði sérstakar reglur um drónaflug á Íslandi. Samskiptastjóri stofnunarinnar segir að reglugerðar sé að vænta en í gær flaug dróni fyrir þyrlu rétt áður en hún lenti á Reykjavíkurflugvelli.

Gísli Matthías Gíslason, þyrluflugstjóri hjá Norðurflugi, lenti í því atviki í gær að dróna var flogið nálægt þyrlu hans. Hann setti færslu um atvikið á Facebook sem vakti töluverða athygli.

Þegar þyrlan flaug yfir ráðhúsið og Tjörnina á leið til lendingar rétt fyrir klukkan tvö í gær flaug dróni beint fyrir framan hana í aðeins nokkurra metra fjarlægð. Dróninn sem um ræðir er hvítur Phantom dróni.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir að almennt gildi sömu reglur um dróna og önnur loftför en að engar sértækar reglur um dróna séu til.

„Það er leyfisskylt að fljúga dróna ef hann er þyngri en fimm kíló. Þá þarftu leyfi frá Samgöngustofu og þú mátt ekki fljúga dróna nær flugvelli en einum og hálfum kílómetra. Almennt séð er það náttúrulega varúðarregla sem öllum ber að fara eftir að gæta sérstakrar aðgæslu þegar flogið er nálægt flugvelli eða í aðflugslínu þar sem að mannað loftfar getur verið til staðar,“ segir Þórhildur.

Í dag séu einu sértæku reglurnar um dróna að finna í upplýsingabréfi Samgöngustofu. Reglugerðar sé þó að vænta.

„Sértækar reglur um dróna eru í vinnslu og hafa verið í vinnslu hjá Samgöngustofu. Þær eru komnar til innanríkisráðuneytisins en Samgöngustofa hefur verið að fylgjast með þeirri reglusetningu sem hefur farið fram í Evrópu. Drög eru til skoðunar þannig að þetta er í farvatninu. Samgöngustofa hefur hvatt til og telur mjög brýnt að reglur um drónaflug verði settar og hefur þess vegna lagt áherslu á að vera í góðu sambandi við önnur Evrópulönd og hvað þar er verið að gera,“ segir Þórhildur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×