Innlent

Dróna flogið nálægt þyrlu við Reykjavíkurflugvöll

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gísli segir ljóst að mikil hætta hefði getað skapast.
Gísli segir ljóst að mikil hætta hefði getað skapast. Vísir
Gísli Matthías Gíslason, þyrluflugstjóri hjá Norðurflug lenti í því óskemmtilega atviki að dróna var flogið nálægt þyrlu hans á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.

Í samtali við Vísi segir Gísli að um algjört dómgreindarleysi hafi verið að ræða. ,,Þetta er akkúrat í aðflugsstefnunni. Ég er þarna við Ráðhúsið við tjörnina og hann flýgur yfir mig" segir Gísli en atvikið átti sér stað um tvöleytið í dag.

,,Ég var að koma eðlilega leið inn, að lenda til suðurs og var meira að segja hærra heldur en venjulega" segir Gísli en dróninn var einungis örfáa metra fyrir ofan hann. Svo nálægt var dróninn að Gísli gat þekkt merkið.

,,Þetta var Phantom dróni, hvítur. Þetta hefði getað skapað mikla hættu. Ég var ekki að birtast af óvöru, ég hafði verið heillengi að koma inn" segir Gísli sem segist eiga erfitt að átta sig á því hver gæti hafa verið svo vitlaus að fljúga drónanum á þessu svæði.

,,Þetta er aðflugsstefnan hjá öllum flugvélum" segir Gísli sem bendir á að þessa leið nýti farþegaflugvélar Flugfélags Íslands sér einnig og því sé um grafalvarlegt atvik að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×