Innlent

Breytingin í bóknámi 40%

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í fyrra voru nemendur yfir 25 ára 17,4 prósent í framhaldsskólum. Í ár eru þeir 15,4 prósent nemenda.
Í fyrra voru nemendur yfir 25 ára 17,4 prósent í framhaldsskólum. Í ár eru þeir 15,4 prósent nemenda. Fréttablaðið/Vilhelm
Framhaldsskólanemum hefur fækkað um ríflega 1.600 á milli ára. Nemendum sem eru eldri en 25 ára í framhaldsskólum hefur fækkað um 742 og skýrir því brotthvarf þeirra tæplega helming fækkunar. Mesta fækkun eldri nemenda er á bóknámsbraut eða um fjörutíu prósent á einu ári.

Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir fækkun eldri nemenda í framhaldsskólum alvarlegt mál. Hún segir hana afleiðingu takmarkana í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2015. Í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir nemendum sem eru eldri en 25 ára á bóknámsbrautum í framhaldsskólum. Skólum var aftur á móti ekki bannað að taka inn eldri nemendur ef þeir höfðu pláss fyrir þá.

„Skilaboðin til eldri nemenda voru skýr. Ef þið viljið fara á bóknámsbraut þá farið þið á Bifröst, Keili eða HR þar sem þarf að borga hundruð þúsunda fyrir önnina,“ segir Oddný. Á heimasíðum skólanna kemur fram að ein önn kosti 85 til 225 þúsund. Þar fyrir utan þarf fólk að hafa lokið talsverðu námi á framhaldsskólastigi til að fá inngöngu í námið í þessum skólum.

Oddný segir það staðreynd að kostnaður og flutningar fæli einhverja frá námi. „Tökum sem dæmi einstæða móður í Fjallabyggð sem hefði getað fyrir breytingu gengið yfir götuna og farið á bóknámsbraut í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fyrir utan mun hærri skólagjöld þarf viðkomandi að rífa sig upp og flytja með tilheyrandi kostnaði til að ná sér í viðbótarmenntun.“

Oddný segir að verið sé að gera fólki erfitt fyrir. „Við sem þjóð eigum að hvetja fólk til að ná sér í menntun. Þetta er ekki menntastefna sem mér líkar.“

Athygli vekur að mesta heildarfækkun framhaldsskólanemenda er á starfs- og listbrautum. Nemendum hefur fækkað um þúsund milli ára eða um tæplega tólf prósent, þrátt fyrir mikla umræðu síðustu ár um skort á iðn- og tæknimenntuðu starfsfólki. Nemendur sem eru eldri en 25 ára skýra eingöngu tæplega þriðjung fækkunar nemenda.

Í talnaefni Hagstofu Íslands koma ekki fram sveiflur í árgöngum sem gætu skýrt fækkun framhaldsskólanema milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×