Viðskipti erlent

Bretar vilja flytja út haggis til Bandaríkjanna

Randver Kári Randversson skrifar
Bandarískir og breskir íþróttamenn bragða á Haggis á vörukynningu Sainsbury´s í Glasgow í vetur.
Bandarískir og breskir íþróttamenn bragða á Haggis á vörukynningu Sainsbury´s í Glasgow í vetur. Vísir/Getty Images
Bresk yfirvöld freista þess nú fá Bandaríkjamenn til að heimila innflutning á haggis, eftir áratugalangt innflutningsbann á þessum þjóðarrétti Skota. Owen Paterson, umhverfisráðherra Bretlands, hyggst fara þess á leit á fundi með bandaríska starfsbróður sínum, Tom Vilsack, að banninu verði aflétt. Fjallað er um málið á vef Western Daily Press.

Innflutningur á haggis til Bandaríkjanna hefur verið óheimill frá árinu 1971, en það ár var neysla á kindalungum, sem er meðal undirstöðu innihaldsefna í haggis, bönnuð í landinu. Auk þess hefur verið í gildi innflutningsbann á bresku kindakjöti frá 1989 vegna riðufaraldurs sem þá kom upp.

Skoskir framleiðendur haggis binda vonir við að þar með opnist markaður fyrir vöruna sem sé ennþá stærri en breski heimamarkaðurinn, vegna þess hve vörur tengdar skoskri menningararfleifð njóti mikilla vinsælda í Bandaríkjunum.

Bresk stjórnvöld telja að hægt verði að taka málið upp í tengslum við fríverslunarviðræður Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×