Erlent

Bretar hafna niðurstöðu SÞ

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur við sendiráð Ekvador.
Mótmælendur við sendiráð Ekvador. Vísir/EPA
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á að vera frjáls ferða sinna og fá bætt fyrir ólögmæta frelsisskerðingu undanfarinna ára. Þetta er niðurstaða nefndar Sameinuðu þjóðanna sem birti niðurstöðu sína nú í morgun eftir að hafa skoðað mál Assange frá 2014.

Staða hans í Bretlandi hefur hins vegar ekki breyst og enn stendur til að handtaka hann.

Úrskurðarnefndin nefnist Vinnuhópur um óréttmætar fangelsanir. Hún var stofnuð árið 1991 og hefur það hlutverk að rannsaka mál einstaklinga sem hafa verið sviptir frelsi og skera úr um hvort það sé gert með ólöglegum hætti.

Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London frá 2012 en hann var fyrst handtekinn árið 2010, vegna meintrar nauðgunar í Svíþjóð. Þá telur Assange sig eiga á hættu að hann verði framseldur til Bandaríkjanna, þar sem yfir honum vofa málaferli og fangelsi vegna uppljóstrana Wikileaks um framferði bandaríska hersins.

Bretar segja hins vegar að niðurstöður nefndarinnar breyti engu. Assange hafi alltaf verið frjálst að yfirgefa sendiráðið. Hann hafi hins vegar sjálfur kosið haldið til þar til að forðast lögmæta handtöku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×